-1.4 C
Selfoss

Messað í fjósi

Sunnudagskvöldið 19. mars nk. kl. 20 verður kúamessa í fjósinu í Gunnbjarnarholti.  Kirkjukórar Hrunaprestakalls syngja sálma og lög undir stjórn organistanna Stefáns Þorleifssonar og Þorbjargar Jóhannsdóttur. Kýr, kálfar, mjólk, naut og uxar – allt skoðað og rætt í Biblíulegu ljósi.  Ritningarorð, hugvekja, bæn og blessun.

Prestur er sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Fjósið í Gunnbjarnarholti er með þeim allra stærstu á landinu og þar innan dyra er m.a. afurðahæsta kýr landsins, Fata (sjá á meðfylgjandi mynd).  Fata, vinkonur hennar og afkomendur í fjósinu munu eflaust leika við hvurn sinn fingur á meðan á messugjörðinni stendur.

Messugestir eru hvattir til að mæta í lopapeysu og föðurlandi. En kröftugur söngur og rjúkandi kaffi í boði heimilisfólksins í Gunnbjarnarholti munu þó gera sitt til að halda hita í messugestum í fjósinu.

Sjáumst í kúamessu í Gunnbjarnarholti á sunnudagskvöldið – verið öll velkomin!

Hrunaprestakall

Fleiri myndbönd