Hamar og Vestri áttust við í úrvalsdeild karla í blaki um síðustu helgi. Bæði lið eru komin í undanúrslit Kjörísbikarsins sem fram fer um næstu helgi og leikurinn því fínasta upphitun fyrir bæði lið fyrir átök komandi fimmtudags.
Leikurinn reyndist þó allt annað en upphitun þar sem bæði lið þurftu að hafa fyrir hverju einasta stigi í leiknum.
Fyrsta hrinan var jöfn framan þar sem liðin virtust vera í uppgjafakeppni. Hamar hafði þó að lokum sigur 25-19. Vestri jafnaði svo leikinn með því að vinna aðra hrinu 25-21 en Hamarsmenn tóku svo aftur forystuna 2-1 með því að vinna þriðju hrinu 25-19. Hamarsmenn ætluðu sér þó greinilega sigur á heimavelli og héldu forystu alla hrinuna þrátt fyrir mikla pressu Ísfirðinganna. Heimamenn unnu lokahrinuna 25-21 og leikinn þar með 3-1 og sitja sem fyrr á toppi deildarinnar. Stigahæstur í liði Hamars var Marcin Graza með 21 stig en í liði Vestra var Franco Nicolas Molina stigahæstur með 17 stig.
Undanúrslit og úrslit Kjörísbikarsins fara fram um næstu helgi. Á fimmtudaginn í undanúrslitum mætast Hamar og Afturelding annars vegar og Vestri og KA hins vegar. Úrslitin fara svo fram á laugardag.
Blakdeild Hamars