-7.1 C
Selfoss

Mýrdalshreppur og Árborg hljóta styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tilkynnti í síðustu viku hver hljóta styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála. Alls fengu 19 verkefni og rannsóknir samtals ríflega 40 milljónir króna í styrki. Meðal þessara styrkja voru tveir sem fóru til sunnlendinga, annars vegar 1.100.000 kr. til Kötluseturs í Mýrdalshreppi og hins vegar 1.300.000 kr. til Sveitarfélagsins Árborgar.

Samfélagið okkar – við erum menningin

Samfélagið okkar – við erum menningin er fjölbreytt verkefni í fámennu samfélagi þar sem hlutfall innflytjenda er hærra en í nokkru öðru sveitarfélaga á Íslandi. Verkefninu er ætlað að styðja við jákvæða samfélagsþróun í fjölmenningarsamfélaginu í Mýrdalshreppi.  Auka á möguleika erlendra íbúa til að tengjast samfélaginu, svo sem með íslenskukennslu, fjölmenningarkór, spilakvöld með tungumálafélögum og ýmsum fleiri viðburðum.

Dómnefnd þótti þetta skemmtilegt verkefni sem stuðlar að virkri þátttöku allra í samfélaginu. Byggir á virkri þátttöku innflytjenda sjálfra.

Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðukona Kötluseturs, tók á móti styrk fyrir verkefnið Samfélagið okkar – við erum menningin, með henni eru Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ljósmynd: Stjórnarráðið.

Sveitarfélagið Árborg fékk sömuleiðis styrk fyrir verkefni sem miðar að því að efla tengsl heimila og leikskóla.

Félags- og hagsmunasamtök innflytjenda voru sérstaklega hvött til þess að sækja um, auk þess sem haldinn var fjölmennur kynningarfundur um umsóknarferlið og fór hann fram á íslensku, ensku, pólsku og spænsku. Í fyrsta sinn voru umsóknareyðublöð og leiðbeiningar auk þess höfð bæði á íslensku og ensku.

„Framlög til þróunarsjóðs innflytjendamála hafa verið stóraukin, enda málaflokkurinn mikilvægari en aldrei fyrr. Ljóst er að mikil gróska er í þróunarverkefnum og rannsóknum sem tengjast flóttafólki og innflytjendum á Íslandi. Nú er einmitt áríðandi að rannsaka áhrif mismunandi aðgerða og verkefna og læra af þeim. Ég óska öllum styrkþegum velfarnaðar og hlakka til að fylgjast með framhaldinu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Mjög ánægjulegt var að sjá fjölda umsókna í ár. Mikilvægasta áherslan okkar að þessu sinni var inngilding og við vorum ánægð að sjá mörg verkefni sem stuðla að henni. Einn mikilvægur þáttur í aðlögun innflytjenda er þátttaka þeirra á öllum sviðum samfélagsins og í ár bárust umsóknir frá innflytjendasamtökum og einstaklingum af erlendum uppruna. Það er jákvæð þróun og við vonumst til að sjá fleiri slíkar umsóknir í framtíðinni. Besta vísbendingin um fjölmenningarsamfélag er þegar innflytjendur og innlendir taka saman þátt í að skapa fjölbreytt samfélag á jafningjagrunni,“ segir Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs.

Fleiri myndbönd