-6.3 C
Selfoss

Vitleysingar í Árnesi í kvöld

Í kvöld frumsýnir Leikfélag Ungmennafélags Gnúpverja leikritið Vitleysingarnir í félagsheimilinu í Árnesi.  Leikfélag Ungmennafélags Gnúpverja flytur verkið sem er fjörugt, fyndið og krassandi stykki eftir Ólaf Hauk Símonarson.

Ólafur Haukur er þjóðinni að góðu kunnur fyrir sínar fjölmörgu skáldsögur, ljóðabækur og smásögur en einnig mörg vinsæl leikrit fyrir svið, útvarp og sjónvarp. Þó leikritið Vitleysingarnir hafi verið skrifað fyrir rúmum tveimur áratugum á það vel við enn þann dag í dag og varpar skoplegri sýn á samfélagið með persónum sem auðvelt er að tengja við, jafnvel þó árið sé nú 2023.

Verkið sýnir á gamansaman hátt hvernig hið daglega amstur og hraðinn á gervihnattaöld gefur í skyn að allt sé í sóma en undir yfirborðinu kraumar einmannaleikinn og erfiðari tilfinningar.

Leikdeildin fékk til liðs við sig leikstjórann Ólaf Jens Sigurðsson til að stýra uppsetningunni. Ólafur Jens útskrifaðist í leikstjórn frá Bristol Old Vic Theatre School árið 2002 og með masterspróf frá listkennsludeild Listaháskóla Íslands árið 2015. Ólafur Jens hefur leikstýrt fjölda áhugaleikfélaga um allt land við góðan orðstír. Að sögn leikfélagsmanna hefur verið einstaklega skemmtilegt að vinna að þessari uppsetningu undir hans stjórn og eru allir hvattir til að mæta í félagsheimilið Árnes í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og njóta skemmtilegrar leiksýningar. Miðapantanir í síma 8691118 eða á gylfisig@gmail.com.

Fleiri myndbönd