-9.2 C
Selfoss

Björgunaraðgerðir á mosa

Vinsælast

Hópur á vegum Orku náttúrunnar hefur síðustu daga unnið hörðum höndum að því að lagfæra skemmdir í mosabreiðu á stóru svæði í Litlu-Svínahlíð í Grafningi. Einhverjum hefur dottið í hug að móta bókstafi og skilaboð í mosann með því að rífa hann upp. Eflaust er þetta gert í hugsunarleysi en slíkt er ekki það sama og að skrifa skilaboð í sandinn á ströndinni , sem skolast burt með næstu öldu.

Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri Orku náttúrunnar stjórnar björgunaraðgerðum á mosanum en hún er þekkt meðal landgræðslufólks fyrir aðferðir sem hún hefur þróað til að endurheimta mosabreiður. Fyrr á árinu fékk Magnea m.a. Umhverfisverðlaun Ölfuss fyrir samskonar verkefni.

Hópurinn freistar þess nú að nota aðferð Magneu, en hún felst í því að taka litlar mosaþúfur umhverfis skemmdirnar, og nýta þær til áfyllingar í sárin. Þetta er gert í von um að sárið grói. Aðferðin mun hafa reynst vel og talið er að þessi aðferð virki vel, en það tekur samt mosann nokkur ár að jafna sig alveg.

Mosakrot, eins og rofið er kallað, hefur aukist á síðari árum og til að mynda hefur sárunum vegna krots í Svínahlíð fjölgað. Þetta hefur einnig verið gert á fleiri stöðum á landinu t.d. við Litlu Kaffistofuna og í Vífilfelli. Mikil lýti verður á landinu og það getur tekið mosann mörg ár eða áratugi að gróa saman sé ekkert að gert. Mikilvægt er að lagfæra skemmdir sem fyrst svo fleiri komi ekki í kjölfarið og herma eftir. Hætta er á að skemmdirnar valdi frekara rofi á mosanum og þannig stækka sárin t.d. við að yfirborðsvatn rennur eftir þeim.

Magnea segir að þau hjá Orku náttúrunnar reyni að miðla þekkingu sinni í þessum málum og ætla að útbúa stutt kynningarmyndband sem sýnir að hver sem er getur tekið sig til og lagfært mosakrot.

Þó ekki sé vitað hvort um sé að ræða ferðamenn í þessu tilviki, er kanski ástæða til að útbúa fræðslu og forvarnarmyndbönd til verndunar náttúrunni.

Margir hafa bent á að villandi boð til ferðamanna felist í mörgum kynningarmyndböndum um Íslenska náttúru, þar sem hægt er að misskilja og halda að hér megi allt.

 

-hs.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir