-6.6 C
Selfoss

Ása Björk ráðin prestur í Árborgarprestakalli

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu í Árborgarprestakalli í Suðurprófastsdæmi. Fjórar umsóknir bárust og hefur sr. Ása Björk Ólafsdóttir verið ráðin í starfið.

Sr. Ása Björk er fædd í Færeyjum þann 28. apríl árið 1965. Foreldrar hennar eru Messíana Tómasdóttir myndlistakona og stjúpfaðir hennar er Pétur Knútsson, fyrrum dósent við Háskóla Íslands. Faðir hennar er Ólafur Gíslason byggingaverkfræðingur og er kona hans Gerða Sigurrós Jónsdóttir.

Sr. Ása Björk ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, en hefur einnig búið í Færeyjum, Grænlandi, Neskaupstað, London, Helsinki og á Írlandi þar sem hún hefur lengst af starfað sem prestur. Einnig hefur hún dvalið langdvölum í Ísrael þar sem faðir hennar starfaði. Ása Björk var kennari í 10 ár, en fór síðan í guðfræði árið 2000 og starfaði við ýmsar kirkjur á námstímanum.

Hún vígðist til Fríkirkjunnar í Reykjavík árið 2005 og var síðan í afleysingu sem héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi 2008-2009.Þá fór hún aftur í nám, en tók síðan við sem sóknarprestur í söfnuðum í Kells og Donaghpatrick á Írlandi árið 2010. Árið 2013 flutti hún til Dublin til safnaðar í Dun Laoghaire, syðst í Dublin og hefur verið sóknarprestur þar í 10 ár.

Með starfi lauk hún námi í klínískri sálgæslu og hefur einnig starfað sem sjúkrahússprestur. Þá hefur sr. Ása Björk einnig verið aðalræðismaður Íslands á Írlandi í nokkur ár.

Fleiri myndbönd