-6.3 C
Selfoss

Í leikskóla hefur alltaf verið gaman

Ég skrifa þetta í tilefni þess að þann 6. febrúar árlega höldum við upp á dag leikskólans. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og gegnir veigamiklu hlutverki í lífi barna á mótunarárum þeirra og þau njóta hans best frá þriðja aldursári sínu.

Þegar ég var 4 ára byrjaði ég í leikskóla. Leikskólinn var þá tvísetinn þ.e. börn voru í vistun annað hvort fyrir eða eftir hádegi og við áttum að koma með nesti í leikskólann því ekki var boðið upp á mat. Ég man mjög vel eftir því þegar ég gleymdi nesti og fékk rúgbrauð hjá fóstrunni. Mér fannst skemmtilegast að drullumalla og syngja. Eina fóstran sem ég man eftir spilaði á gítar og söng með okkur og hafði ég þá eignast eina af mínum fyrstu fyrirmyndum fyrir utan foreldra mína og eldri systur. Í leikskólanum mótaðist einnig sjálfsmynd mín og ég áttaði mig fyrst á veikleikum mínum og styrkleikum. Ég man enn eftir orðunum sem einhver fóstran sagði við mig þegar mér fannst ég ekki geta leyst eitthvað verkefni. Hún sagði ákveðið „ Jú Sólveig, þú getur!“.  Á leikskólaárunum myndaði ég mín fyrstu vináttubönd og grunnur lagður að félagsmótun minni.
Fimmtán árum síðar stóð ég frammi fyrir þessum sama leikskóla, þá sem ungur starfsmaður. Ég heillaðist af starfinu enda hafði ég þar eina bestu starfsfyrirmynd sem ég hef haft. Mér fannst stórkostlegt að vinna með börnum og var hvött til að sækja um leikskólakennaranámið í Fósturskóla Íslands sem ég og gerði.

Í dag er ég svo heppin að starfa í leikskólanum Hulduheimum á Selfossi og njóta þess að fylgjast með námi og þroska leikskólabarna. Við leitum reglulega eftir áliti barnanna við mótun starfsins og fylgjumst vel með líðan þeirra í leikskólanum. Nýverið svöruðu 3 elstu árgangar leikskólans svokallaðri broskarlakönnun þar sem þau voru meðal annars spurð hvað þeim þætti skemmtilegast í leikskólanum. Svörin voru margvísleg því að sjálfsögðu höfða mismunandi hlutir til mismunandi einstaklinga. Flestir sögðu að það væri skemmtilegast að leika sér í leikskólanum. Það sem var skemmtilegast úti var að renna, róla, búa til holu, tína köngla og steina, skoða köngulær og hjóla. Skemmtilegustu leikirnir inni sögðu margir vera að leika í púðum og dýnum, segulkubbum, að lita og mála. Þó nokkrir nefndu að skemmtilegast væri í hópastarfi en eins og margir vita læra börn í gegnum leikinn. Leikurinn er því þungamiðja leikskólans og þar skapast námstækifærin. Ég enda á því að deila með ykkur textanum úr leikskólalaginu fræga;

Í leikskóla er gaman.
Þar leika allir saman.
Þau leika úti og inni
og allir eru með
að hnoða leir og lita.
Þið ættuð bara að vita
hvað allir eru duglegir
í leikskólanum hér.

Sólveig Dögg Larsen
Aðstoðarleikskólastjóri í Hulduheimum

Fleiri myndbönd