-11.6 C
Selfoss

Fundið fé!

Mikið var um dýrðir í Árbæjarhjáleigu þegar fréttist af komu hvítrar tvævetlu ásamt tveimur hrútlömbum að fjárhúsunum í Næfurholti fyrr í vikunni. Kindin hafði hrist af sér smala og hunda fyrr í vetur og tók á rás og hvarf á Rangárvallaafrétt. Talið er að hún hafi ferðast, ásamt lömbum sínum, um 70 kílómetra leið á síðustu tveimur mánuðum. Kristinn Guðnason, bóndi í Árbæjarhjáleigu var hissa og kátur þegar blaðamaður náði tali af honum.

„Okkur vantaði fé hérna inni á Landmannaafrétti og höfðum grun um að það væri kannski þarna mjög hátt við jökulinn Rangárvallamegin og svo þarna eitthvað í kringum 20. nóvember förum við að leita inni á Rangárvallaafrétti ásamt rangvellingi og þá finnast fjórar kindur og svo finnst hvít tvílemba sem reyndist vera svona eins og við smalarnir segjum „alveg vitlaus“ það komst hundur í hana og hún lamdi hann svo hann þorði ekki að reyna við hana meir. Á þessum tíma er birtan stutt og við urðum auðvitað að hætta að elta hana og leita þegar komið var myrkur, þetta var í Jökultungum á Rangárvallaafrétti sem hún fannst. En daginn eftir var ómögulegt veður og við komumst ekki. Svo var farið fram næsta dag og leitað um svæðið, það var grunur um að hún væri jafnvel neðan úr Álftaveri. Það var leitað mikið á því svæði og sást ekkert til hennar eða ummerki um hana. Við fórum svo viku seinna inn á Landmannaafrétt á alla helstu staði þar. Okkur var farið að gruna að þetta gæti verið tvílemba sem mig vantaði, hún átti að vera með tveimur hrútum en þeir sáu lömbin aldrei almennilega svo það fékkst ekki staðfest. Síðan er búið að fara tvisvar þrisvar úr Álftaveri, Skaftártungum og héðan án þess að nokkuð fyndist, segir Kristinn.

Svo var það núna á mánudaginn að Ófeigur, bóndi í Næfurholti, sér hvíta tvílembu heima við hlið við fjárhúsið hjá sér, með tvo hrúta. „Þeir sáu hana það vel þegar verið var að elta hana í nóvember að það var mikill sandur í bakinu á lömbunum svo að það var ekki um að villast að þetta væru sömu kindurnar. Það sem við erum mest hissa á er hvernig hún hefur komist alla þessa leið, þetta er yfir margar kvíslar og sprænur að fara nema við höldum helst að hún hafi lagt af stað strax daginn eftir að við hættum að elta hana, að hún hafi verið komin það vestarlega að við fundum hana ekki. Svo hafi hún raunverulega bara haldið áfram fram í Næfurholtshaga og verið þar í harðindunum, hún lítur það vel út að það er mjög ótrúlegt að hún hafi verið einhversstaðar inn´á fjöllum,“ segir Kristinn.

„Svo þegar hlánaði aftur, þá er það oft sem svona kindur taka sig upp. Þá hefur hún klárað ferðina alveg heim að fjárhúsum í Næfurholti, eða nánast heim að fjárhúsum, hún komst ekki alla leið. En okkur finnst þetta mjög sérstakt því þetta er ekki nema tvævetra kind svo maður er ennþá meira hissa hvað hún hefur haldið stefnunni og að hún hafi komist alla þessa leið með bæði lömbin. Maður telur sig vita flest um hegðun kinda en svona nokkuð kemur á óvart. Hún hefur bara tekið strikið útúr, beinustu stefnu heim. Það er gaman að segja frá því að 2-3 dögum áður vorum við Ófeigur að tala saman og töldum þá víst að hún sæist aldrei meir,“ segir Kristinn að lokum.

Fleiri myndbönd