-9.7 C
Selfoss

Kostnaður við framboðin í Hveragerði 2022

Árið 2017 beitti undirritaður sér fyrir því að reglur um styrki til stjórnmálasamtaka í Hveragerði yrði breytt svo að upplýsingar um ársreikninga þeirra og kostnað við framboð til sveitarstjórnarkosninga yrðu birtar á opinberum vettvangi. Tilgangurinn var ekki síst að auka gagnsæi í stjórnsýslu bæjarins og til að íbúar geti fylgst með rekstri og fjárveitingum til stjórnmálasamtaka sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn hverju sinni.

Birting upplýsinga

Árið 2018 reyndi í fyrsta skipti á þessi ákvæði um birtingu fjárhagsupplýsinga stjórnmálasamtaka í Hveragerði. Misjafnt var hvernig stjórnmálasamtökunum gekk að uppfylla skilyrðin til að byrja með. Þannig birti Sjálfstæðisflokkurinn í Hveragerði ekki ársreikning fyrir árið 2018 eða kostnað við framboð í sveitarstjórnarkosningum 2018 fyrr en í febrúar 2020 (21 mánuði eftir kosningar) og það ekki fyrr en eftir að undirritaður hafði lagt fram fyrirspurn í bæjarstjórn um málið. Frá árinu 2020 hafa stjórnmálasamtök í Hveragerði, sem fulltrúa hafa átt í bæjarstjórn, fylgt reglunum að fullu sem er afar ánægjulegt að sjá.

Sveitarstjórnarkosningar 2022

Sveitarstjórnarkosningar fóru fram 14. maí 2022. Þrjú framboð buðu fram í Hveragerði og urðu úrslitin þau að Okkar Hveragerði fékk 39,6% atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn 32,8% og tvo bæjarfulltrúa og Framsókn 27,5% og tvo bæjarfulltrúa. Okkar Hveragerði og Framsókn mynda nú meirihluta í bæjarstjórn Hveragerðis.

Upplýsingar um kostnað vegna framboðs til sveitarstjórnarkosninga í Hveragerði voru birtar af Sjálfstæðisflokknum þann 1. september 2022, Okkar Hveragerði birti upplýsingar 17. október 2022 og Framsókn þann 30. desember 2022. Samtals var kostnaður framboðanna þriggja vegna sveitarstjórnarkosninganna kr. 5.230.957. Eins og í fyrri kosningum var kostnaður Sjálfstæðisflokksins hæstur og var hann árið 2022 kr. 2.325.754. Kostnaður Framsóknar var næsthæstur kr. 1.466.715 og kostnaður Okkar Hveragerðis lægstur kr. 1.436.466. Ef skoðaður er kostnaður framboðanna á hvern bæjarfulltrúa er hann svona:

  • Okkar Hveragerði (3 fulltrúar): 478.822 kr.
  • Framsókn: (2 fulltrúar): 733.358 kr.
  • Sjálfstæðisflokkurinn (2 fulltrúar): 1.162.877 kr.

Njörður Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Nýjar fréttir