1.7 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Humarpasta með hvítlauksbrauði

Humarpasta með hvítlauksbrauði

Humarpasta með hvítlauksbrauði
Hugrún Vignisdóttir.

Hugrún Vignisdóttir er matgæðingur vikunnar.

Ég vil þakka henni Katrínu vinkonu minni kærlega fyrir þessa áskorun, borgararnir smökkuðust afbragðs vel eins og henni er von og vísa.

Þar sem ég kem nú úr sjávarþorpi er vel við hæfi að skella í eina afar einfalda humarpastauppskrift og hvítlauksbrauð með. Verði ykkur að góðu.

Humarpasta
1 kg humar
10-15 beikonsneiðar (fitulitlar)
1 pk. sveppir (má sleppa)
1 ferskur hvítlaukur (þessir heilu)
1 dl vatn
hvítlaukspipar
smjör til steikingar
½ lítri rjómi
500 gr tagliatelle

Aðferð: Skerið bacon í bita og steikið með sveppum upp úr smjöri og setjið svo til hliðar. Skelflettið humarinn og hreinsið. Bræðið smjör á pönnu og setjið humarinn á. Raspið hvítlaukinn á pönnuna með humrinum og kryddið með hvítlaukspipar. Best að svissa humarinn en ekki elda hann alveg í gegn. Setjið svo sveppina og baconið út á pönnuna ásamt ca. 1 dl af vatni. Látið sjóða í 2-3 mín. Hellið síðan rjómanum út í og látið suðuna koma upp og þykkið eftir þörfum. Smakkið til. Ef þörf er á að salta má notast við smá sjávarsalt eða grænmetiskraft.

Pastað er síðan soðið eftir leiðbeiningum. Mér finnst voða gott að nota ferskt pasta sem fæst í flestum matvörubúðum en annars dugar hvaða pasta sem er.

Hvítlauksbrauð
500 gr. brauðhveiti
½ pk. þurrger
1 tsk. salt
2,5 dl vatn
1-2 msk. olía
1 tsk. hunang (eða sykur)

Fylling
150 gr smjör
½ – 1 ferskur hvítlaukur (pressa/raspa)
1 msk. þurrkuð basilika

Öll þurrefni sett í skál. Vatn og olía hituð upp að ca. 38° og sett svo í ílát ásamt hunanginu og þurrgerinu. Látið bíða í 5-10 mín. eða þar til gerið freyðir. Þá er því hellt út í þurrblönduna og hnoðað saman. Hægt er að minnka hveiti magnið og setja heilhveiti á móti eða annað mjöl. Deigið látið hefast með rökum klút ofan á í ca. 1 klst. Og eitt tips með það: Ef þið eigið bakaraofn með ljósi þá er mjög gott að kveikja bara á ljósinu, setja skálina með deiginu inn í ofninn og leyfa því að hefast þar. Það kemur hiti frá ljósinu og raki frá klútnum sem auðveldar og styttir hefunartímann.

Fyllingin er hrærð saman þar til smjörið er alveg mjúkt. Þegar deigið hefur hefast nóg er því skipt í eins stóra búta og þið viljið hafa brauðið. Flatt gróflega út með höndunum (gætið að slá ekki allt loft úr brauðinu), smjörblöndunni skellt í mitt endilangt deigið, brjótið það svo saman í átt að miðju og klemmið saman með fingrunum. Það má vera aðeins opið en gott að loka að mestu svo fyllingin haldist á sínum stað. Gott að leyfa því að standa í smá stund og hefast meir en engin nauðsyn. Skellið því svo inn í ofn á 190°C í ca.15 mín. eða þar til það er orðið gyllt og fínt (fer eftir stærð og ofnum).

Ég skora síðan á sjómanninn og matgæðinginn Marinó Fannar, eða Ninnó eins og hann er kallaður, að koma með næstu uppskrift. Hann getur sem dæmi töfrað fram frábæra fiskrétti sem væri gaman fyrir aðra að fá að njóta.