-9.7 C
Selfoss

Æ en þetta er svo flókið!

Vinsælast

Þessa vikuna fögnum við fjölbreytileikanum með hinsegin viku í Árborg. Hvað þýðir það nú eiginlega og til hvers þarf ég að læra eða vita nokkuð um þennan hinseginleika?

Ég hef verið alla vikuna með fræðslu í 7. og 10. bekkjum í grunnskólum Árborgar sem hefur verið ofsalega áhugavert og upplífgandi en umfram allt skemmtilegt. Börn koma mér stöðugt á óvart og þessum spurningum geta mörg börn ykkar svarað. Þau gera sér grein fyrir að það er mikilvægt að læra um alla þá flóru af fólki sem einkennir samfélagið okkar. Að einsleitt samfélag væri litlaust og jafnvel óáhugavert. Þau vita oft á tíðum meira en þið gerið ykkur grein fyrir. Við sem fullorðið fólk viljum samt að börnin okkar fái réttar upplýsingar og við viljum geta átt umræðuna með þeim. Þess vegna er æskilegra að taka spjallið með börnunum sínum en að þau fræðist eingöngu í netheimum. Þar eru einhliða upplýsingar, stundum réttar og sannar en stundum alger vitleysa. Þetta vita þau en vita kannski ekki hvernig á að hefja samtalið heima. Sú ábyrgð liggur á ykkur kæru foreldrar. En það sem hins vegar gæti reynst mörgum erfitt er að hefja samræður um eitthvað sem maður veit kannski sjálf/t/ur lítið um.

Það eru nokkurn grunnhugtök sem er gott að kynna sér fyrst til að byrja með. Hugtakið sem allt byrjar með er kynjatvíhyggjan. Þegar samfélagið gerir aðeins ráð fyrir tveimur kynjum, að þau séu andstæður og bæti hvort annað upp. Án annars er hitt ekki til. Þeir sem fæðast með píku eru konur og þeir sem fæðast með typpi er karlar. Ekkert þar á milli. Kynjum er otað saman og ákveðin barátta verður á milli þeirra og jafnvel ákveðið valdamisvægi þar sem kynin eru síður en svo jöfn á öllum sviðum. En ef við skorum aðeins á tvíhyggjuna og opnum hugann fyrir því að það séu til fleiri kyn þá getur opnast nýr heimur fyrir okkur þar sem allir fá pláss. Við þurfum ekki að skilgreina kyn út frá kyneinkennum, typpi og píku. Við erum vissulega vön því í vestrænu samfélagi. “Það hefur alltaf verið svona, mun alltaf verða svona og þú getur engu um það breytt vina mín” er sambland af setningum sem ég fæ reglulega og lýsir mikilli íhaldssemi. Við megum vissulega hafa ólíkar skoðanir en þurfum ávallt að hafa mannréttindi og virðingu að leiðarljósi. Hver og ein manneskja má tjá kyn sitt á þann hátt sem þeirri manneskju hentar. Staðreyndin er sú að það eru bara sumir með typpi og sumir með píku. Það eru bara einkenni sem tilheyra líkamanum mínum, skapað af litningum rétt eins og það að ég er bláeygð, lágvaxin, með höku föðurættarinnar og eyru móðurfjölskyldunnar. Segir ekkert meir en það.

Önnur hugtök sem gott er að skoða samhliða tvíhyggjunni er kynvitund. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sinn á einhvern hátt. Kynvitund snýst um það hvernig við upplifum okkur sjálf, kyn okkar og hefur ekkert að gera með þau líffræðilegu kyneinkenni sem við fæðumst með. Fólk getur verið sátt við það kyn sem þeim var úthlutað eða tilkynnt við fæðingu og myndu þá tilheyra meiri hluta fólks og nota forskeytið sís/sískynja. Svo er annar hópur sem upplifir kynvitund sína ekki samræmast því kyni sem þeim var tilkynnt/úthlutað við fæðingu og er trans. Orðið trans er lýsingarorð og undir það fellur m.a. trans strákar/karlar, trans konur/stelpur, fólk sem fer í kynleiðréttandi aðgerðir, fólk sem fer ekki í slíkar aðgerðir og þeir sem upplifa sig kynsegin.

Að upplifa sig kynsegin snýst um að upplifa kyn sitt utan kynjatvíhyggjunnar. Kynsegin fólk getur skilgreint sig karlkyns og kvenkyns, hvorki karlkyns né kvenkyns eða valið að skilgreina ekki kyn sitt. Þau Nota oft fornöfnin hán sem fallbeygist eins og orðið lán.

Nú síðast en ekki síst í kyn-orðasúpunni sem ég býð ykkur hér upp á er orðið kynhneigð sem snýst um það hverjum fólk hrífst af, vil vera í sambandi með, stunda kynlíf með eða ekki. Kynhneigð er algerlega óháð kynvitund og kyneinkennum. Börnin ykkar hafa eflaust allskonar orð yfir þær ýmsu kynhneigðir sem komin eru orð á.

Margir velta fyrir sér hvers vegna í veraldarsögunni þarf að finna upp öll þessi nýju orð og setja orð á allt. Ástæðan er einföld. Forréttindapésar eins og t.d. ég, sískynja gagnkynhneigð/karlkynhneigð kona hef alltaf átt orð yfir það hvernig ég upplifi mig. Sá sem er t.d. kynsegin hefur ekki fyrr en loksins núna síðustu ár átt orð fyrir upplifun sína af eigin kyni. Sá sem hrífst af persónuleika fólks óháð kyni á loksins orð fyrir kynhneigð sína sem er pankynhneigð. Þannig að orðin eru sköpuð til þess að samfélagið okkar dragist frá því að gera ráð fyrir að allir séu sískynja og gagnkynhneigðir.

Vissuð þið að það að sýna skilning og virðingu getur bjargað mannslífum. Á hverju ári eru margir einstaklingar sem tilheyra hinsegin samfélaginu sem taka eigið líf vegna fordóma, skilningsleysis og vanvirðingar. Við getum gert það sem í okkar valdi stendur með því að fræða okkur og börnin okkar, leiðrétta aðra sem eru með niðrandi eða fordómafulla orðræðu, vera með opin huga fyrir fjölbreytileikanum og bera virðingu fyrir því hvernig aðrir upplifa og tjá kyn sitt. Fáfræðsla skapar fordóma en þekking skapar skilning. Ætlar þú að viðhalda fordómum eða tækla þá? Þetta er ekki eins flókið og þú heldur.

Hugrún Vignisdóttir
Sálfræðingur
Zen Sálfræðistofa

Nýjar fréttir