Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon var í kvöld kjörinn Íþróttamaður ársins, annað árið í röð, af samtökum íþróttafréttamanna. Ómar sigraði með miklum yfirburðum með 615 atkvæði. Í öðru sæti var knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir með 276 atkvæði og handboltamaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson var í þriðja sæti, þremur atkvæðum á eftir Glódísi. Frá upphafi kjörsins hefur aldrei munað meira á fyrsta og öðru sæti.
Hann hélt sigurför sinni áfram þegar hann var valinn besti leikmaður ársins í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í júní. Ómar fékk 65,26% atkvæði á meðan næstu menn á eftir honum voru með sitthvor 10% atkvæða.