-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Laugarvatnshellir endurbyggður

Laugarvatnshellir endurbyggður

0
Laugarvatnshellir endurbyggður

Laugarvatnshellir hefur verið endurgerður og gerður aðgengilegur gestum í eins upprunalegri mynd og mögulegt er. „Hugmundin var að glæða hellinn lífi á ný og koma þar með sögu og menningararfleið til bæði heimamanna og gesta,“ segir Smári Stefánsson.

Laugarvatnshellar eru tveir manngerðir hellar sem eru staðsettir á milli Þingvalla og Laugarvatns. Engar heimildir eru til sem benda til hvenær eða hver bjó þá til. Þó eru uppi kenningar um að þeir hafi verið gerðir fyrir landnám af Pöpum. Í gegnum aldirnar voru hellarnir notaðir af fólki og búfénaði. Góðar beitarlendur eru á Laugarvatnsvöllum og var sauðfé því oft rekið þangað og hellarnir notaðir sem skjól. Eftir að bera fór á draugagangi hættu smalar að vilja vera í hellunum yfir nótt og lagðist sá siður fljótt af.

Saga hellanna er um marg merkileg. Árið 1910 fluttu ung hjón, Indriði Guðmundsson og Guðrún Kolbeinsdóttir í hellana og bjuggu þar í eitt ár. Árið 1918 flutti annað ungt, nýgift par í hellana, þetta voru þau Jón Þorvarðarson og Vigdís Helgadóttir. Þau bjuggu í hellunum í fjögur ár og eignuðust þrjú börn á þeim tíma.

Báðir ábúendirnir voru með hefðbundinn búskap í hellunum þ.e. kindur, hesta og eina kú. Settar voru niður kartöflur, ber tínd og veiddar rjúpur. Til að afla tekna voru farnar ferðir til Reykjavíkur þar sem seldar voru rjúpur. Báðar fjölskyldurnar voru með greiðasölu og seldu veitinar til þeirra sem leið áttu hjá en hellarnir eru í alfaraleið þeirra sem áttu erindi til Reykjavíkur úr sveitinni. Einnig þegar fara átti frá höfuðborginni að skoða Gullfoss og Geysi var gjarnan stoppað í hellunum og áð. Þess má geta að ekki ómerkari maður en Kristján X konungur Íslands og Danmerkur kom við í hellunum í Íslands heimsókn sinni árið 1921.

 

„Markmið okkar var að endurgera hellinn í þeirri mynd sem hann var þegar búið var í honum til að gestir geti gert sér í hugarlund hvernig fjölskyldurnar tvær bjuggu og hvernig menningarheimur þeirra var. Staða hellisins í dag er þannig að lofthæðin í honum hefur minnkað verulega á síðustu áratugum þar sem gólfið hefur hækkað mikið, líklegast vegna jarðvegsfoks og sauðataðs. Til að koma hellinum í það horf sem hann var þegar búið var í honum þurfti því að moka út úr honum, byggja útvegg og innrétta hellinn eins og hann var,“ segir Smári.

Sett hefur verið upp tjald fyrir utan hellinn þar sem seldar eru léttar veitingar eins og ábúendurnir gerðu forðum daga. Einnig er boðið upp á leiðsögn og hellaferðir í hraunhella í nágrenninu. Fyrirtækið sem Smári rekur hefur mikla reynslu í leiðsögn slíkra ferða enda boðið upp á leiðsagðar hellaferðir síðan 2008.

 

„Það er einstakt að búið hafi verið í hellinum og ég er viss um að enginn er að segja þá sögu með jafn áþreifanlegum hætti og gerum. Sagan varðveitist og er glædd lífi sem ekki hefur verið gert áður.“

Öll vinna við endurgerð híbýlisins var unnin í nánu samráði við Minjastofnun Íslands. Smári segir að mikilvægt hafi verið að hafa slíkan samstarfsaðila með í ráðum til að endurbyggingin sé eins vel úr garði gerð og mögulegt er.

Smári segir alla velkomna að koma í heimsókn og að þau munum fara með fólk um hellana og umhverfi þeirra og segja sögur af ástum og erfiðleikum hellisbúanna. Ferðin tekur 20 mínútur og er farið af stað á 30 mínútna fresti. Fyrir eða eftir leiðsögnina getur fólk sest niður í tjaldinu með kaffibolla og kruðerí. Til að upplifun gesta verði eins góð og mögulegt er farið með hámark 20 manns í hverri ferð. Hægt er að panta áður á heimasíðunni www.thecavepeople.is.