3.9 C
Selfoss

„Lítil netverslun með stórt hjarta“

Vinsælast

Davíð Kjartansson, Skákmeistari- og Hraðskákmeistari Reykjavíkur 2022, ólst upp á Djúpavogi en hefur búið á Kirkjubæjarklaustri, Höfn í Hornafirði, Reykjavík, Sviss og nú í Hveragerði svo það má segja að Suðurland hafi alltaf átt stóran part af honum. „Ég byrjaði að tefla 5 ára gamall. Það voru pabbi og afi minn sem kenndu mér mannganginn. Eftir gæslu í skólanum þegar ég var 6 ára voru skákæfingar sem ég laumaði mér á með bekkjarfélaga mínum. Stuttu seinna var haldið skákmót þar sem ég lenti í öðru sæti og fékk mína fyrstu medalíu. Ég man tilfinninguna eins og það hefði gerst í gær hvað ég varð glaður og ánægður. Á þessum tíma rann það upp fyrir foreldrum mínum að ég ætti kannski að byrja að æfa skák. Í framhaldinu fékk ég þjálfara og byrjaði að vinna markvisst af því að bæta mig.“

Yndislegt sport sem þjálfar rökhugsun og einbeitingu

Davíð opnaði vefverslunina skakbudin.is sumarið 2021. „Skákbúðin er hugmynd sem ég var búin að vera með í hausnum í mjög langan tíma. Hér í eina tíð var skákbúð við Hlemm, síðan hefur þetta alltaf verið á þvælingi milli stórverslanna og spilabúða. Það hefur aldrei verið til neinn staður sem hægt er að fá faglega aðstoð hvað varðar skákvörur og hægt að kaupa skákkennslu á sama stað. Það var líka vonlaust að kaupa vönduð skáksett og taflborð hér á landi. Það var mikil vöntun á sérverslun með þessa hluti þvi skák er fyrir alla og þá meina ég alla! Þetta er eitt af fáum íþróttum þar sem kyn, líkamsburðir, aldur, hæð, fötlun og  þar frameftir götunum skiptir litu sem engu máli. Skák er jafnvel hægt að tefla blindandi! Okkur skákmönnum finnst skákin vera hálfgert þjóðarsport því það kann nánast hvert einasta mannsbarn mannganginn og þetta gengur milli ættliða. Gömul taflborð og skákbækur erfast. Þetta er yndislegt sport sem þjálfar rökhugsun og einbeitingu enda margir af fremstu íþrótta- og fræðimönnum í heiminum sem tefla reglulega til að þjálfa þennan anga.“

Eftir að hafa horft á Queens Gambit á Netflix í faraldrinum þótti Davíð ekkert annað í stöðunni en að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd þrátt fyrir allskonar höft og skort á hráefni til að smíða taflmenn víðsvegar í heiminum. „Með herkjum tókst þetta þá á endanum og Skákbúðin opnaði formlega á netinu í júní 2021. Það tekur alltaf tíma að koma þessu á laggirnar og myndi ég segja að í desember í fyrra hafi hún verið komin með mjög gott vöruúrval sem stækkar og stækkar. Mér fannst vanta einn góðan stað þar sem hægt væri að fá faglegar ráðleggingar við val á taflmönnum og taflborðum sem og skákkennslu því spurningar eru oft margar.“

Þakklátur fyrir jákvæð viðbrögð

 „Skákbúðin er fyrir alla, skák er fyrir alla. Byrjendur á öllum aldri hafa haft samband sem vilja byrja að tefla, ömmur og afar sem vilja kaupa taflsett handa barnabörnum, vinnustaðir, hótel, skólar, leikskólar, í sumarbústaðinn, bara nefndu það. Það er svo jákvætt að sjá hvað skákin er að vaxa og fólk er að átta sig á hvað þetta er holl heilaleikfimi. Svo er fallegt taflborð og taflmenn algjört stofudjásn.“

Davíð segir viðbrögðin við Skákbúðinni hafa verið ótrúlega jákvæð. „Ég er ég afar þakklátur fyrir það. Það tekur alltaf tíma að koma sér á kortið en ég sé að það er alltaf að bætast í og fólk að átta sig á að Skákbúðin sé til. Fólk kann líka afskaplega vel að meta góða og faglega þjónustu því oft er fólk að taka sín fyrstu skref í skákinni. Hafandi verið í skák
nánast allt mitt líf og teflt með öllum mögulegu settum út um allan heim þá get ég gefið fólki góðar leiðbeiningar bæði varðandi töfl og svo kennsluefni í skák. Við erum ennþá lítil netverslun með stórt hjarta. Það eru allir velkomnir til okkar og fátt sem gleður okkur meira en að sjá taflsett fara inn á heimili víðsvegar um landið. Einbeitingin og rökhugsunin hjálpar okkur í námi, leik og starfi.“

Ákveðin kynslóðaskipti í gangi

Davíð finnst að skák ætti að vera skyldufag í skólum. „Svo mikla trú hef ég á ávinningnum. Ég hef líka séð hvað skákin hefur hjálpað mörgum að bæta sig á öðrum sviðum. Því miður hefur verið lægð hér á Suðurlandi í skákkennslu bæði hjá börnum og fullorðnum. Ég vona að það sé að breytast og miðað við það góða starf sem Skákfélag Selfoss og nágrennis er að vinna býst ég við aukningu hjá börnum og unglingum. Það eru ákveðin kynslóðaskipti í gangi sem býr til helling af tækifærum til að efla skákina enn frekar á Suðurlandi.

Suðurlandsmótið hefur verið haldið undanfarin þrjú ár með miklum sóma, öll í mismunandi bæjarfélögum. Það þarf að gera skákina og æfingarnar sýnilegri og reglulegri. Þannig fjölgar iðkendum fyrr.“

Skákbúðin hefur tekið að sér einkakennslu á netinu fyrir áhugasama og hefur það lukkast virkilega vel og sér Davíð mörg tækifæri þar fyrir Sunnlendinga. „Það væri frábært að sjá skákkennslu í sem flestum skólum sem valfag. Skákbúðin var fengin til að halda skáknámskeið í vetur í Fischersetrinu fyrir 10-16 ára. Það lukkaðist ótrúlega vel og væri gaman að halda því samstarfi áfram við skákfélagið. Gaman væri að halda fleiri skáknámskeið á fleiri stöðum á Suðurlandi,“ segir Davíð.

Eitt ódýrasta sport sem hægt er að stunda

„Skákbúðin er fyrst og fremst netverslun en ekkert mál að nálgast vörurnar í Hveragerði eða hafa beint samband við mig ef það vakna einhverjar spurningar. Við erum á öllum helstu samfélagsmiðlum og með heimasíðuna www.skakbudin.is. Hvet alla til að kíkja og skoða góðar jólagjafir. Skákvörur eru nefnilega frábrugðar öðrum íþróttum af því að það þarf bara að kaupa þetat einu sinni. Það eru engar uppfærslur í skák eða ný módel. Skák er klassísk og tímalaus sem gerir þetta að einu ódýrasta sporti sem er hægt að stunda,“ segir Davíð að lokum.

Nýjar fréttir