1.7 C
Selfoss

Allar óskir um jólasnjó voru uppfylltar samtímis

Engum hefur dulist sú mikla snjóa- og óveðurstíð sem hefur herjað á sunnlendinga síðustu daga. Fjöldahjálparmiðstöðvar voru opnaðar á Hellu, Selfossi og Þorlákshöfn á laugardagskvöld og aftur á Hellu í gærkvöld, þar sem strandarglópar gátu leitað skjóls, en fjöldi fólks sat fastur víðsvegar um Suðurland í ljósi þess að vegir lokuðust skyndilega eftir að snjóa tók á föstudagskvöld. Það tók ekki meira en tæplega þrjár klukkustundir eftir að fyrstu snjókorn vetrarins féllu, fyrir Hellisheiði og Þrengsli að loka vegna fjölda bíla sem sátu fastir í þungum snjónum. Þegar leið á nóttina var flestum vegum um Suðurland lokað vegna ófærðar og stóðu lokanir sumstaðar fram á sunnudagsmorgun, en ferðalangar sátu sumir hverjir fastir klukkustundum saman á leið sinni austur úr Reykjavík. Metúrkoma var á Selfossi á föstudagskvöld, þar sem sumstaðar mældist yfir 60 cm af jafnföllnum snjó, svo það virðist sem allar óskir sunnlendinga um jólasnjó hafi verið uppfylltar samtímis.

Skólahald féll niður í nokkrum skólum í dag og í gær vegna óveðurs, jólaböll, vettvangsferðir og skólaakstur féll víða niður og björgunarsveitir og lögregla hafa hvatt fólk til þess að halda sig heima sökum afleits ferðaveðurs.

 

Fleiri myndbönd