-11.6 C
Selfoss

Grunnskólinn í Hveragerði styrkir einstök börn um rúmar 2 milljónir

Síðastliðin ár hafa nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Hveragerði haldið góðgerðarþema í nóvember. Tilgangur þemadaganna er að efla samkennd nemenda og láta um leið gott af sér leiða. Þrír dagar fara í vinnu þar sem ýmsar vörur eru útbúnar og svo seldar á Góðgerðardag sem haldinn var föstudaginn 2. desember síðastliðinn. Markaðstorg var opið öllum í íþróttahúsi og einnig sáu nemendur á elsta stigi um kaffihús í mötuneyti skólans fyrir gesti.

Ein stærsta ákvörðun sem við tökum í tengslum við góðgerðarþemað er hvaða starfsemi við ákveðum að styrkja í það og það skiptið. Við höfum að mestu lagt það í hendur nemenda. Í öllum bekkjum fer fram umræða um hvaða starfsemi við viljum styrkja og í framhaldi af þeirri umræðu er rafræn könnun lögð fyrir hvern bekk. Kosning um hugmyndir nemenda fer einnig fram meðal starfsfólks. Sameiginleg niðurstaða starfsfólks og nemenda í ár var sú að styrkja Einstök börn, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni.

Nishadi U. Weerasooriya, formaður nemendaráðs og Maríus Blær Irpu Davíðsson, yngsti nemandi skólans, afhentu Öddu Maríu Óttarsdóttur, fulltrúa Einstakra barna styrk að fjárhæð 2.184.000 kr.

Þau málefni sem við höfum styrkt hingað til hafa verið valin með tilliti til þess að börn njóti á einhvern hátt góðs af styrknum. Meginstef okkar hefur þannig verið að börn styrki börn. Umtalsverðar fjárhæðir hafa safnast á þessum árum með sölu á vörum og eins hafa fjölmörg fyrirtæki stutt við bakið á söfnuninni með beinum peningastyrkjum. Styrkþegar okkar hingað til hafa verið:

2015: Amnesty International (460.00 kr.-)

2016: Félag krabbameinssjúkra barna (810.000 kr.-)

2017: Barnaspítali Hringsins (1.360.000 kr.-)

2018: Birta, landssamtök þar sem foreldrar sem misst hafa börn sín skyndilega geta sótt styrk og stuðning (1.750.000 kr.-)

2019: Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna (1.480.000 kr.-)

2020: Féll niður vegna Covid

2021: Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki (1.400.000 kr.-)

2022: Einstök börn, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni (2.184.000.-)

Fleiri myndbönd