-5.5 C
Selfoss

Þrjár nýjar bækur frá bókaútgáfunni Nýhöfn í Hveragerði

Bókaútgáfan Nýhöfn í Hveragerði gefur út 6 veglegar bækur í ár og af þeim eru þrjár nú áberandi á jólamarkaði. Þetta eru bækurnar Draugaslóðir á Íslandi sem Símon Jón Jóhannsson tók saman, Ingólfur Arnarson – Arfleifð hans og Íslandssagan í nýju ljósi eftir Árna Árnason rekstrarhagfræðing og Gullöldin – Myndir og minningar eftir Rúnar Gunnarsson.

Ívar Gissurarson útgefandi hjá Nýhöfn gaf Dagskránni góðfúslegt leyfi til að birta kaflann um Arnarbælisskottu úr bókinni Draugaslóðir á Íslandi en í bókinni eru um 100 draugasögur úr öllum landshlutum. Farinn er hringurinn um landið og sagðar draugasögur úr flestum sveitum. 

Arnarbæli merkt inn á kort.

Arnarbælisskotta

Séra Jón Daðason (1606-1676) var prestur í Arnarbæli í Ölfusi um miðja 17. öld. Hann var lærður maður og skáld en hjátrúarfullur í meira lagi. Áður en séra Jón varð prestur í Arnarbæli hafði hann verið prestur í Ögurþingum við Ísafjarðardjúp og lent þar í ýmsu mótlæti. Sagt var að einu sinni hefði Jón verið að húsvitja og gist hjá hreppstjóra en verið tekið fálega. Heyrði hann þá á tal tveggja kerlinga sem sögðu að um kvöldið kæmi gestur á bæinn sem væri vanur að drepa presta. Kom gesturinn um kvöldið og var Jón þá viss um að hann mundi bana sér. Ákvað hann því verða fyrri til og skömmu eftir að fólk var gengið til náða fór hann og kyrkti gestinn. Kom hann sér síðan á brott úr sókninni svo fljótt sem hann gat og varð þá kirkjuprestur í Skálholti og síðar í Arnarbæli. Auðvitað voru Vestfirðingar óánægðir með viðskilnað Jóns vestra og sendu honum hvern drauginn á fætur öðrum suður. En séra Jón kunni það mikið fyrir sér að hann vissi alltaf þegar sendingar voru magnaðar til hans og gat varist þeim. Sendi hann draugana ýmist heim aftur eða kom þeim fyrir á annan hátt. Einu sinni sem oftar vissi séra Jón að sending væri á leiðinni til hans. Sendingin var svo mögnuð að prestur treysti sér ekki til að mæta henni. Lét hann þá fara með reiðhest sinn inn í stofu og breiddi yfir hann messuskrúða. Sjálfur fór hann í hesthúsið, lét gyrða sig söðli og setja upp í sig beisli og beið svo á á fjórum fótum í stallinum. Draugurinn kom og drap hestinn í stofunni en séra Jón slapp ómeiddur í hesthúsinu. Annað sinni sat prestur heila nótt á kirkjumæninum og kvað kvæði sitt Draumgeisla yfir draug sem sótti að honum.

Arnarbæliskirkjugarður. Ofan hans stóð áður Arnarbæliskirkja sem byggð var 1864-66. Hún var rifin árið 1909 og sóknin lögð til Kotstrandar. Kirkju er fyrst getið í Arnarbæli árið 1200. Ljósm.: Ívar Gissurarson.

Séra Jón varð svo bráðkvaddur á túninu í Arnarbæli þar sem heitir Kaldakinn og töldu menn að draugur hafi komið honum að óvörum og drepið hann. Eftir dauða Jóns fór að bera á miklum draugagangi í Arnarbæli og var þá einna helst kvendraugur á ferðinni með prjónaskotthúfu á höfði. Hún gerðist staðarfylgja og var nefnd Arnarbælisskotta.

Arnarbælisskotta gerði fólki á bænum margs konar glettur og skemmdi ýmislegt svo sem tóvinnu. Ekki gerði hún fólki að öðru leyti mein nema að menn töldu hana hafa drepið séra Jón. Alltaf þurfti að hafa lausan bás fyrir Arnarbælisskottu í fjósinu að sofa í. Væri brugðið út af því drápust kálfar eða kýr féllu úr nyt. Stundum á messudögum sáu menn Skottu húka á bak við bæjardyrnar meðan hringt var til messu og var greinilegt að hún þoldi illa klukknahljóðið.

Sigvaldi hét maður sem bjó í Strýtu í Bakkárholtshverfi seint á 18. öld. Var hann talinn göldróttur. Prestur sá, sem þá var tekinn við í Arnarbæli, bað Sigvalda að koma Arnarbælisskottu niður ef hann mögulega gæti. Honum tókst að særa Skottu út í Búlkhúsós og að steini sem stóð í ósnum. Ekki gat Sigvaldi kveðið Arnarbælisskottu alveg niður því hún fór sífellt undan í kringum steininn en hann gat búið svo um hnútana að hún varð föst þar og komst ekki burt. Leitaði Sigvaldi síðan til Jóns er bjó í Bakkárholti og bað hann að liðsinna sér við að koma Skottu niður. Fóru þeir saman í Búlkhúsós að fást við Skottu. Jón fór með kröftugt ákvæðiskvæði sem hann hafði ort en Sigvaldi gól galdra og fór með særingar. Gengu þeir hvor á móti öðrum í kringum steininn og tókst þannig að króa Arnarbælisskottu af á milli sín. Með þessu gátu þeir loks komið Skottu niður og bjuggu svo rammlega um að hún losnaði ekki aftur. Var steinninn síðan kallaður Skottusteinn. (Sbr. Guðni Jónsson, Íslenzkir sagnaþættir og þjóðsögur III, s. 18-22.)

Ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar af Arnarbæli eftir Suðurlandsskjálftann 1896.

Fleiri myndbönd