Það er komin hefð fyrir jólamarkaði á Brimrót á Stokkseyri í desember. Engin breyting verður á þeirri góðu hefð þetta árið. Markaðurinn verður helgina 17. -18.12. frá 14 – 18. Bækur, plötur og myndlist verður það helsta í boði sem og léttar jólaveitingar.
Upplestur höfunda verður líka á laugardaginn og við erum heppin og þakklát fyrir þá góðu höfunda sem ætla að líta við og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Þau sem koma og lesa upp eru Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir sem lesa úr bók sinni Aldrei nema vinnukona. Sveinbjörg er höfundur bókarinnar Aldrei nema vinnukona sem kom út 2020 sem er heimildarskáldsaga sem fylgir þremur ættliðum kvenna úr Skagafirði á sautjándu og átjándu öldinni. Í Aldrei nema vinnukona tvinnar Sveinbjörg saman tveimur sögum; af ferð vinnukonu til Ameríku og lífi hennar þar og vinnukonu í Skagafirði og Húnavatnssýslu.
Kristín Bragadóttir sendir frá sér í ár bókina Bakkadrottningin. Eugenía Nielsen. Bók sem á sannarlega erindi við Stokkseyri og Eyrarbakka en Eugenía bjó ásamt fjölskyldu sinni í Húsinu á Eyrarbakka. Eugenía var óþreytandi í framfaramálum fyrir svæðið, kenndi í skóla og leiddi menningarstarfsemi ásamt manni sínum í Húsinu. Bókin er sannarlega fengur í fyrir skrásetningu á sögu mannlífs við ströndina.
Tvö ljóðskáld lesa einnig upp. Þau Pjetur Hafstein Lárusson sem sendir frá ljóðabókina Fárra orða ljóð en hann hefur áður sent frá bækur um margvísleg efni og Natalia S. Stolyarova sem sendi frá sér ljóðabókina Máltaka á stríðstímum en fyrir hana fékk hún bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár.
Upplesturinn hefst um 14 á Brimrót eins og áður segir á Stokkseyri, Hafnargötu 1 og allir hjartanlega velkomnir.