-8.9 C
Selfoss

Tveir ungir Ölfusingar skara framúr

Daníel E. Arnarson úr Þorlákshöfn og Stefán Ólafur Stefánsson frá Öxnalæk eru meðal þeirra tíu ungu Íslendinga sem hlotið hafa viðurkenningar fyrir að vera Framúrskarandi ungur Íslendingur 2022 af þessum tíu einstaklingum verður svo valinn einn verðlaunahafi. Verðlaunin hafa verið veitt árlega af JCI á Íslandi frá árinu 2002 og verða því veitt í 21. skipti í dag, miðvikudaginn 30. nóvember þegar Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhendirverðlaunin ásamt landsforseta JCI.

Verðlaunin eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Þetta er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni.

Mynd: framurskarandi.is

Daníel E. Arnarsson

fær viðurkenningu fyrir framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda. Daníel hefur starfað ötullega að málum hinsegin fólks og hefur verið framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78 frá árinu 2017. Samtökin ‘78 eru málsvari hinsegin fólks á Íslandi, veita hinsegin fólki sterkari rödd í samfélagsumræðunni og berjast fyrir lagasetningu sem skilar bættum réttindum hinsegin fólks. Þau veita þá ráðgjöf til hinsegin einstaklinga og aðstandendur þeirra en einnig eru þau með umfangsmikla fræðslustarfsemi þar sem skólar, stofnanir og fyrirtæki eru heimsótt og frætt um hinsegin málefni. Daníel er fæddur árið 1990 og er uppalinn á Þorlákshöfn til tvítugs, síðan þá hefur hann búið í Hafnarfirði og í Reykjavík. Daníel gekk í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Hann er með bakkalárgráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands.

Daníel hefur verið mikið í stjórnmálum frá því að hann var 17 ára gamall og tekið þátt í öllum kosningum síðan 2009. Hann byrjaði með ungliðagreyfingunni, UVG og sat í stjórn hennar frá 2007 til 2014. Hann stofnaði Ung vinstri græn á Suðurlandi og var formaður þess í tvö ár. Hann hefur starfað mikið  fyrir Vinstrihreyfingin – grænt framboð og hefur hann bæði verið varaþingmaður Suðurkjördæmis 2017 og einnig varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður frá 2021. Daníel vann í markaðs- og auglýsingamálum hjá Te & Kaffi, hefur unnið við fiskvinnslu, þjónastörf, verslunarstjóra störf, var kosningastjóri í þremur kosningum og áður en hann byrjaði hjá Samtökunum ’78 var hann framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í frítíma sínum leggur Daníel rækt við söng og stýrir vikulegum karaoke-kvöldum á hinsegin skemmtistaðnum Kiki-Queer Bar.

Mynd: framurskarandi.is

Stefán Ólafur Stefánsson

fær viðurkenningu fyrir störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði. Stefán er tveggja barna fjölskyldufaðir á Seltjarnarnesi, útskrifaður með B.A. í Uppeldis- og menntunarfræði og M.Sc. í Markaðsfræði og Alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Árið 2016 stofnaði hann ásamt öðrum fyrirtækið Ekki Gefast Upp! með það að markmiði að bjóða upp á líkamsrækt fyrir börn og ungmenni sem glíma við andlega vanlíðan s.s kvíða og þunglyndi. Markmiðið með stofnun Ekki gefast upp! var að skapa jákvæða upplifun af hreyfingu fyrir einstaklinginn og mæta honum með persónulegri nálgun og þéttum stuðningi. Á námskeiðum þeirra er leitast við að skapa tækifæri fyrir börn og ungmenni sem búa að neikvæðri reynslu úr heimi skólaíþrótta eða skipulags íþróttastarfs til að finna aftur þá gleði og ánægju sem hreyfing getur haft. Námskeiðin hafa hlotið mikilla vinsælda síðan þau hófu göngu sína árið 2016 og hafa skapað sér stóran sess í þeim málaflokki er kemur að forvörnum og ræktun geðheilbrigðis meðal barna og ungmenna. Eftirspurnin er mikil og fjölbreyttur hópur einstaklinga sækir þar þjálfun.

Nýlega var verkefnið Ekki Gefast Upp! styrkt af velferðarsjóð barna um 2,8 milljónir og var styrkurinn fyrst og fremst nýttur til þess að gera fleiri ungmennum kleift að taka þátt og fyrir Ekki Gefast Upp! til að ná í auknum mæli til jaðarsettra hópa í samfélaginu. Þá stóð hópurinn fyrir vitundarvakningunni “Tölum saman” þar sem almenningur var hvattur til að skora á sjálfan sig og skuldbinda sig í leiðinni til að láta fjölskyldu sína og vini vita að þau væru til staðar ef eitthvað bjátaði á. Stefán hefur lengi starfað með ungu fólki en hann starfar einnig sem IPS atvinnulífstengill hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóð. Í starfi sínu aðstoðar hann ungt fólk í endurkomu til vinnu sem glímir m.a við íþyngjandi félagslegar aðstæður, lítinn félagslegan stuðning, geðrofssjúkdóma o.fl.

Áður starfaði Stefán Ólafur sem stuðningsfulltrúi fyrir Reykjavikurborg, sem fóstra í sumarbúðum fatlaðra í  Reykjadal og sem NPA aðstoðamaður. Lengst af eða frá árunum 2013-2019 starfaði hann sem ráðgjafi á Barna- og Unglingageðdeild Landspítalans og sinnti þar bæði einstaklings og fjölskylduráðgjöf í meðferð tengdri sjálfsvígshugsunum og tilraunum til sjálfsvígs, alvarlegum og hamlandi einkennum þunglyndis og kvíða og meðferð tengdri einkenna og gruns um geðrof. Þá bar hann ábyrgð á öryggismálum deildarinnar og starfaði í átröskunarteymi deildarinnar alla sína tíð. Málefni barna og ungmenna hafa lengi verið honum hugleikin en Stefán situr í samráðshóp vegna undirbúnings frumvarps til nýrra laga um heildstæða skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi en árið 2019 kynnti hann meistararitgerð sína á Þjóðarspeglinum um viðhorf ungmenna í 8. – 10. bekk til skólaíþrótta.

Dómnefnd skipaði Þórunn Eva Pálsdóttir, Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021, Eyvindur Elí Albertsson verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg og senator JCI, Geir Finnson forseti LUF, Ragnhildur Helgadóttir rektor Háskólans í Reykjavík og Ríkey Jóna Eiríksdóttir landsforseti JCI 2022.

Fleiri myndbönd