1.7 C
Selfoss

Umfangsmikil ferðaþjónusta í Kerlingafjöllum

Mikil uppbygging á sér nú stað í Kerlingarfjöllum þar sem fyrirtækið Fannborg ehf byggir nú upp umfangsmikla ferðaþjónustu.  Þrátt fyrir umfang framkvæmdanna er haldið fast í þann anda sem frumbyggjar starfs í Kerlingarfjöllum sköpuðu og taka húsin og uppbygging öll mið af landslagi og hefðum á svæðinu.

Framkvæmdir hafa gengið afskaplega vel og nú er risið nýtt hótel og smáhýsi í Ásgarði auk þess sem hús sem þarna voru fyrir hafa fengið nýtt hlutverk og mörg hver nýja staðsetningu. Verða stærstu húsin tengd með gangi neðanjarðar sem eykur þægindi gesta.  Í hótelinu og tilheyrandi smáhýsum er gistirými fyrir um 150 gesti sem einnig geta notið þess að dvelja í annarri af tveimur glæsilegum svítum hótelsins. Einmuna veðurblíða hefur lengt mögulegan framkvæmdatíma verulega en nú vinna í Ásgarði hátt í 30 manns við uppbygginguna á hálendismiðstöðinni sem í framtíðinni mun skapa á annan tug starfa.

Í Kerlingarfjöllum má njóta einstakrar náttúru enda hefur mögnuð náttúran,  hverasvæðið, fjöllin og öræfin dregið að sér fjölda ferðamanna í áratugi. Í Kerlingarfjöllum má finna þriðja stærsta háhitasvæðið á hálendinu. Hæstu fjöll á svæðinu eru um 1200 til 1500 metra há og hefur orðið mikil aukning í gönguferðir um svæðið.  Með nýrri og betri aðstöðu fyrir gesti í Kerlingarfjöllum má búast við að enn betur fari um þá sem sækja svæðið heim um leið og gætt er að umhverfissjónarmiðum í hvívetna.

Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Jón Bjarnason oddviti og Hannibal Kjartansson veitustjóri heimsóttu Ásgarð í Kerlingarfjöllum í liðinni viku og kynntu sér uppbygginguna sem er sú mesta sem nú á sér stað í Hrunamannahreppi.

Fleiri myndbönd