Föstudagskvöldið 11. nóvember sl. var Sviðaveisla á vegum Félags eldriborgara í Hveragerði og var hún haldin í Rósakaffi. Við í stjórn félagsins áttum von á að 50 – 60 manns myndu skrá sig en raunin varð önnur. Eftir fyrstu þrjá tímana í skráningu voru komin 70 nöfn og þannig hélt þetta áfram. Við fórum nokkrar ferðir að ræða við húsráðendur í Rósakaffi og þau sögðu alltaf „ekkert mál, við bætum bara við stólum og borðum og færum til húsgögn.“ Þetta endaði með geysilega góðri veislu með 107 gestum, Karlakór Hveragerðis söng fyrir okkur, í happdrætti kvöldsins voru margir góðir vinningar, maturinn bragðaðist frábærlega og var skolað niður með margs konar spennandi tegundum af bjór. Og það eru bara allir svo glaðir og ánægðir að geta aftur hitt mann og annan og blandað geði.
Margt annað hefur verið í boði á þessu ári. Má þar nefna tvær mjög vel heppnaðar dagsferðir á vegum félagsins, Vestmannaeyjaferð í lok maí og haustferð um Njáluslóðir um miðjan september. Báðar ferðir hafa verið góðar, fólk hefur látið ánægju sína óspart í ljós og allir hafa komist með sem vildu. Einnig má nefna þrjár leikhúsferðir, tvær í vor og eina í haust.
Í september sl. fór af stað ný dagskrá, bæði í húsnæði félagsins, Þorlákssetri, en einnig í húsnæði Heilsustofnunar NLFÍ og í sal Skyrgerðarinnar. Má þar nefna ný námskeið s.s. vatnsleikfimi, dansleikfimi, Yoga og Yoga nidra slökun, ritlist, vatnslitun, listútsaumur, en fastir liðir eins og félagsvist, bridge, boccia, handavinna, tréskurður, ljósmyndun, bókmenntahópur o.fl. er einnig á sínum stað og öflugt kórastarf hjá Hverafuglum.
Það sem er næst á döfinni: Föstudaginn 18. nóvember kl. 19.30 verður í Þorlákssetri fræðsluerindi um öldrun og er það Sigrún Huld, hjúkrunarfræðingur og rithöfundur sem heldur það. Einnig eru Hverafuglar að taka þátt í kóramóti á Hótel Örk um næstu helgi. Fimmtudaginn 1. desember verður svo farið í jólahlaðborð á Hótel Rangá.
Það er gaman að geta þess að það hafa um 60 nýir félagar gengið í félagið okkar síðan í haust, margir aðeins rúmlega 60 ára. Nú miðum við líka við að fólk sé enn í vinnu og höfum ýmislegt í boði eftir kl. 17 á daginn.
En hver er grunnurinn að þessum áhuga og góðu gengi í Félagi eldri borara í Hveragerði? Á aðalfundi félagsins í febrúar sl. voru kosnir þrír nýir stjórnarmenn sem hafa margra áratuga reynslu af stjórnun og vinnu við félagsmál. Það skilaði sér í því að strax í byrjun maí skipulögðum við vorfund sem við kölluðum „hugmyndahitting“ þar sem við notuðum aðferðir SVÓT-greiningar til að kanna í hópastarfi áhuga og vilja félagsmanna. Um 70 manns mættu og niðurstöður úr þessari hópavinnu félagsmanna er grunnurinn að þeirri vinnu sem farið hefur fram síðan. Félagarnir skipta öllu máli og stjórnin hefur það hlutverk að skipuleggja það starf sem þeir hafa mestan áhuga á. Við leggjum okkur fram um það – þess vegna er svo gaman saman.
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, starfandi formaður FEB Hveragerði