-5.5 C
Selfoss

Hliðarverkefni varð að bestu vinnu í heimi

Þann 29.október síðastliðin voru liðin 10 ár frá opnun CrossFit Hengils í Hveragerði. Haldið var upp á afmæli stöðvarinnar með þemaæfingu, pílumóti og yfir 100 manna árshátið meðlima stöðvarinnar sem haldin var á Hótel Örk. Hjónin Heiðar Ingi Heiðarsson og María Rún Þorsteinsdóttir eru hjónin sem reka CrossFit Hengil.

„Upphaflega stofnuðum við CrossFit Hengil með vinahjónum en fljótlega skildu leiðir og við hjónin tókum alfarið við rekstrinum. Heiðar starfar sem lögreglumaður í Reykjavík og kynnist Crossfit í gegnum vinnuna en margir viðbragðsaðilar nota æfingakerfið sem part af sinni þjálfun. Heiðar talaði ekki um annað en CrossFit til að byrja með svo úr varð að ég ákvað að prófa líka og féll alveg fyrir þessu um leið. Þegar við svo fluttum aftur heim í Hveragerði fórum við að leita að plássi fyrir okkur sjálf til að æfa. Okkur langaði líka mikið til að geta boðið sunnlendingum að kynnast CrossFit svo einn daginn kom þetta húsnæði upp í hendurnar á okkur og við ákváðum að láta slag standa. Við reiknuðum hins vegar ekki með því að þetta yrði full vinna hjá mér innan 2ja ára og að þjálfarahópurinn okkar teldi hátt í 20 manns nú 10 árum síðar,“ segir María Rún.

Félagsmiðstöð fullorðinna

„Við erum með starfsemi í kjallara íþróttahússins í Hveragerði. Þegar ég var unglingur var þetta félagsmiðstöð. Síðar hýsti húsnæðið æfingar ýmissa hljómsveita og púttaðstöðu fyrir golfara áður en við tókum við því. Það má því segja að við höfum fært starfsemina aftur til fortíðar og þar sé nú aftur rekin félagsmiðstöð en nú sem félagsmiðstöð fullorðinna,“ segir María létt í bragði.

Besta vinna í heimi

„Það sem hefur komið mest á óvart á þessum 10 árum er held ég bara hversu mikið þetta starf sem starfrækt er í þessum kjallara hefur gefið okkur. Upphaflega átti þetta að vera algjört hliðarverkefni við önnur störf okkar. Ég ætlaði t.d. bara að sjá um bókhaldið og einhver tilfallandi verkefni og Heiðar og Björgvin bróðir hans að sjá um þjálfunina. Það breyttist hratt. Okkur vantaði fljótlega fleiri þjálfara svo ég ákvað að hætta í vinnunni og sækja mér alla þá menntun sem ég gat sem þjálfari og í dag er ég held ég í bestu vinnu í heimi. Margar af okkar bestu stundum síðastliðin 10 ár tengjast Crossfit Hengli á einn eða annan hátt. Við höfum eignast frábæra vini í gegnum starfið, kynnst fullt af fólki betur sem maður hafði kannski áður bara séð á förnum vegi. Við höfum fylgt mörgum okkar iðkendum í allt að 10 ár og það er ótrúlega gefandi. Við höfum auðvitað fylgst með þeim styrkjast í gegnum þjálfunina og orðið vitni að óteljandi persónulegum sigrum, stórum sem smáum en við höfum einnig fylgt þeim í gegnum ýmis tímamót í lífi þeirra, gleðistundir sem og erfiðleika og áföll og séð hvernig þetta bakland sem þau eiga í Henglinum hefur hjálpað þeim og styrkt á einn eða annan hátt.“

Vingjarnlegt og jákvætt andrúmsloft einkennir andann

„Það eru bara einhverjir töfrar sem eiga sér stað alla daga í Henglinum. Fólk mætir flest upphaflega til að vinna að því að bæta heilsu sína og hreysti. Til að styrkja sig og/eða léttast o.s.frv. og það er eitthvað sem allir okkar iðkendur eiga sameiginlegt, að vera umhugað um heilsu sína. Flest sjá það hins vegar fljótlega að þau eru að fá aðgang að einhverju miklu stærra og meira. Fyrir flesta okkar iðkendur er þetta ekki bara líkamsrækt heldur aðgengi að dýmætum hópi fólks sem á það sameiginlegt að verja klukkutíma á dag nokkrum sinnum í viku í að vinna markvisst að bættri heilsu, líkamlegri sem og andlegri og fá útrás. Þetta er samfélag. Ótrúlega fjölbreytt samfélag fólks á öllum aldri frá Hveragerði, Selfossi, Þorlákshöfn og fleiri nágrannasveitarfélögum okkar. Vingjarnlegt og jákvætt andrúmsloft er það sem einkennir andann í Henglinum og þó við vitum allt um mikilvægi úthalds-og styrktarþjálfunar og erum stolt af þeirri faglegu þjálfun sem við erum að bjóða upp á þá erum við held ég stoltust af þessum anda sem einkennir stöðina, svo er líka alltaf ótrúlega mikið stuð og hress og góð stemning,“ segir María.

Ekki eins og McDonalds

„Þessi 10 ár hafa verið ótrúlega skemmtileg og hafa liðið merkilega hratt. Húsnæðið hefur tekið þónokkrum breytingum í gegnum árin og iðkendafjöldinn hefur aukist jafnt og þétt. Það eina sem hefur ekki breyst er metnaður okkar fyrir því að bjóða Sunnlendingum upp á heimsklassa CrossFit þjálfun. Við búum auðvitað svo vel að hafa Björgvin Karl í okkar liði. Hann er beintengdur öllum bestu þjálfurum heims í þessum bransa svo við erum alltaf með puttann á púslinum. Við höfum fengið til okkar heimsmeistara í sippi, ólympíumetahafa í róðri, fimleikaþjálfara sem var fyrrum meðlimur Cirque de soleil og sérhæfða lyftingarþjálfara sem hafa mótað þjálfara okkar og þá þjálfun sem við bjóðum upp á. Hver og ein CrossFit stöð hefur algjörlega frjálsar hendur með sína þjálfun. Þetta er ekki eins og McDonalds þar sem þú færð sama hamborgarann hvar sem þú ert í heiminum svo við höfum lagt mikla vinnu í að þróa okkar tíma, skipulag þeirra og áherslur og þeir hafa breyst mikið til hins betra frá því að við opnuðum enda var sportið mjög nýtt á þeim tíma.“

Gömlu góðu leikfimiæfingarnar

En hefur CrossFit breyst mikið á þessum 10 árum? „Já og nei. CrossFit er í raun ekkert nýtt, það er að segja að þær æfingar sem við erum að vinna með eru bara gömlu og góðu leikfimiæfingarnar, auk þess sem við notum ýmsar góðar og skemmtilegar hreyfingar úr fimleikum, kraftlyftingum og ólympískum lyftingum, allt í bland. Það er akkúrat það, þessi fjölbreytni, sem gerir þetta svo skemmtilegt að fólk endist í þessu sporti í mörg ár og þetta verður eiginlega bara lífsstíll. Það geta öll verið með sem vilja, algerlega óháð líkamsástandi. Við erum með mjög hæfa faglega þjálfara sem setja saman æfingaprógrammið og aðstoða hvern og einn iðkanda við að aðlaga æfingar dagsins að eigin getu. Stundum þýðir það að viðkomandi þarf að vinna með minni þyngd og stundum þýðir það að við þurfum að skipta æfingunni út fyrir aðra æfingu sem ýmist reynir á sömu vöðvahópa eða ekki, allt eftir því hver ástæðan fyrir aðlöguninni er. Í rauninni gætum við verið með allan aldur og öll getustig saman í einum tíma en það er ekki mjög praktískt, né heldur besta leiðin til að tryggja það að við séum að bjóða upp á bestu þjálfunina fyrir hvern hóp. Með því að skipta þessu aðeins upp, vera með sér tíma unglinga, sér fyrir mæður eftir meðgöngu og sér fyrir eldra fólk sem og fólk sem vill fara sér hægar og vera í aðeins afslappaðra umhverfi og sleppa tæknilega erfiðustu æfingunum þá náum við að mæta þörfum hvers og eins iðkanda og skapa umhverfi sem styður við mismunandi þarfir þeirra,“ segir María.

Aðlögun að hverjum og einum iðkanda er lykilatriði

„Það er algengur misskilningur að CrossFit sé bara fyrir eitthvað ofurfólk. Ég held að fólk sé of oft að horfa á CrossFit stjörnurnar okkar; Björgvin Karl, Annie, Katrínu Tönju og Söru og halda að það sé það sem við erum að bjóða upp á í öllum okkar tímum, hvort sem það eru opnu tímarnir, mömmutímarnir, Gull tímarnir eða unglingaCrossFittið. Það er þessi aðlögun að hverjum og einum iðkanda sem er lykilatriðið. Í hverjum einasta tíma vinnur hver og einn með æfingar sem henta sínu getustigi og á sínum hraða og ákefð og því geta öll sem vilja verið með. Það er til fólk sem er ekki með útlimi sem æfir CrossFit og jafnvel keppir í íþróttinni. Það eina sem þarf er smá útsjónasemi, vilji og samvinna þjálfara og iðkandans.“

Reynum að gera þennan klukkutíma einn af þeim bestu yfir daginn

„Merkilega margir iðkendur hafa fylgt okkur frá upphafi og við erum alveg ótrúlega stolt af því. Við vorum mjög dugleg að taka myndir þegar við opnuðum sem við birtum daglega á Facebook síðunni okkar, þetta var auðvitað fyrir daga Snapchat og Instagram. Þegar við skoðum þær þá sjáum við að langstærsti hluti þeirra sem byrjuðu að æfa hjá okkur fyrir 10 árum eru ýmist enn að æfa hjá okkur eða í öðrum stöðvum eftir að hafa flutt milli landshluta eða landa.Við vitum að CrossFit Hengill hefur átt stóran þátt í því að efla heilsu og hreysti sunnlendinga síðastliðin 10 ár. Þessi starfsemi hefur líka verið frábær leið fyrir marga nýbúa á svæðinu til að kynnast fólki og komast inn í samfélagið. Við stefnum á að halda bara okkar striki. Halda áfram að bjóða upp á bestu mögulegu þjálfunina hverju sinni og bjóða öll velkomin. Allur okkar metnaður liggur þar, að halda áfram að gera það sem við erum að gera og gera það vel. Markmiðið okkar er alltaf að þessi klukkutími sem fólk á hjá okkur sé einn af þeim bestu þann daginn,“ segir María að lokum.

Fleiri myndbönd