Guðni Ágústsson kynnir bók sína Guðni – Flói bernsku minnar
Bókaútgáfan Veröld verður með opið hús í Risinu í Mjólkurbúinu Selfossi á laugardaginn kemur, 5. nóvember kl. 15.00. Þar mun Guðni Ágústsson og Guðjón Ragnar Jónasson kynna bókina Guðni – Flói bernsku minnar. Þeir félagar ferðuðust um Flóann, sérstaklega fæðingarsveit Guðna, Hraungerðishreppinn, og segir Guðni sögur af ýmsu tagi um fólkið og mannlífið í Flóanum, jafnt af kynlegum kvistum sem virðulegum stórmennum. Þeir félagar koma víða við á ferð sinni og Guðni týnir til margt skemmtilegt og fer um víðan völl eins og honum er lagið. Hann segir frá fólki bæði lífs og liðnu og sögupersónurnar eru margar. Guðni er einlægur í frásögnum sínum, en glettnin er aldrei langt undan. Og merkja má söknuð eftir veröld sem var, þegar hugur var í mönnum og sveitirnar að styrkjast.
Guðni er annálaður sagnamaður og einn vinsælasti tækifærisræðumaður þjóðarinnar. Í hugum margra er hann enn hinn eini sanni landbúnaðarráðherra Íslands – og um leið ötull talsmaður landsbyggðarinnar. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Hægt verður að kaupa bókina á tilboðsverði í Risinu og mun Guðni árita bækur.