Lagið Faðir sem Jónas Sig gaf út 14. október ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar flaug beint í 5. sæti vinsældalista Rásar 2 og hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur.
Nú styttist óðum í tónleika þeirra, sem haldnir verða í Háskólabíói 11. nóvember. Tónleikarnir eru haldnir af því tilefni að 10 ár eru liðin frá því að Jónas Sig og Lúðrasveit Þorlákshafnar unnu saman að plötu Jónasar; Þar sem himin ber við haf og héldu mikla útgáfutónleika í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn sem heppnuðust frábærlega. Á þessari plötu voru mörg lög sem síðan hafa öðlast sjálfstætt líf eins og Hafið er svart, Þyrnigerðið og síðan gullmolar eins og Tónar við hafið þar sem tónlistarhópur eldri borgara í Þorlákshöfn; Tónar & Trix kom við sögu.
Platan í heild sinni og grafískt listaverk
Á tónleikunum verður platan flutt í heild sinni ásamt eldri lögum Jónasar. Þar verður einnig gríðarlega mikið grafískt listaverk sýnt samhliða plötunni sem unnið var af Þórarni F. Gylfasyni fyrir tónleikana fyrir 10 árum. Nú hefur hann ásamt Agli Kristbjörnssyni þróað það enn frekar og verður það án efa mikið sjónarspil á stóra skjá Háskólabíó.
Heilandi afl heilbrigðrar karlmennsku
Lagið Faðir kallast sterklega á við hljóðmynd plötunnar sem kom út fyrir tíu árum og vekur upp sterk hugrenningatengsl við hafið; Tilfinning um beljandi haf, öldur sem berja á klettunum og ölduniðinn í fjarska. Útgáfan sjálf er tileinkuð gömlum félaga lúðrasveitarinnar sem nýlega féll frá. Lagið sjálft er samið af Jónasi og fjallar um orkuna sem tengist hlutverki föður og því heilandi afli sem losnar úr læðingi við heilbrigð tengsl. Heilandi afl heilbrigðar karlmennsku sem er ekki skaðandi né dæmandi heldur einlægt augnaráð og styrk rödd sem hvetur okkur áfram þegar við höfum ekki trú á okkur sjálf. Eitthvað sem allir þurfa á að halda og mikill missir að margir fara á mis við að hafa slíka rödd í sínu lífi…
Nú fer hver að verða síðastur til að tryggja sér miða á tónleikana 11. nóvember á miðasöluvefnum www.tix.is.