-6.6 C
Selfoss

Dagþjónusta fyrir eldri borgara í Uppsveitunum   

Brýn þörf er fyrir dagþjónustu fyrir eldri borgara  í uppsveitum Árnessýslu og hafa sveitarfélög á svæðinu undanfarið samþykkt að hefja vinnu við undirbúning að slíkri starfsemi. 

Í Hrunamannahreppi var fjallað um málilð á fundi sveitarstjórnar þann 20. október s.l..

Á fundinum var lögð fram greining starfsmanna Heilsugæslunnar í Laugarási og velferðarþjónustunnar í Uppsveitunum  á þörf fyrir dagþjónustu fyrir eldri borgara á svæði þeirra. 

Tildrög þessa eru þau að sveitarfélögin Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Hrunamannahreppur sóttu um til heilbrigðisráðuneytisins að komið yrði á fót hjúkrunarheimili í Uppsveitum Árnessýslu. Á fundi sem fulltrúar sveitarfélaganna áttu með starfsmönnum ráðuneytisins í vor kom fram að um langtímaverkefni væri að ræða sem tæki tíma að koma á fjármála- og framkvæmdaáætlun hjá ríkinu. Umsókninni var vel tekið og því sýndur skilningur að þörf væri fyrir úrræði á þessu svæði. Starfsmenn ráðuneytisins ræddu m.a. um það hvort þörf væri á dagþjónustu fyrir eldri borgara á svæðinu. Á fundi sem fulltrúar sveitarfélaganna í Uppsveitum og Flóa áttu með fulltrúum HSU og félagsþjónustunnar í Laugarási í vor kom fram það mat starfsmanna sem koma að heimahjúkrun og heimaþjónustu að þörf væri fyrir slíkt úrræði. 

Í framhaldi af því samþykktu öll sveitarfélögin sem eiga aðild að félagsþjónustunni í Laugarási að kanna nánar þörf fyrir dagþjónustu (dagdvöl) á svæðinu. 

Niðurstaða greiningarinnar liggur fyrir og er ljóst að umtalsverð þörf er á því að komið verði upp dagvistunar úrræði fyrir eldra fólk á svæðinu. 

Til að vinna áfram að málinu hefur verið samþykkt að hvert sveitarfélaganna tilnefni einn fulltrúa í starfshóp sem undirbúi umsókn til heilbrigðisráðuneytisins um dagþjónusturými fyrir svæðið, vinni áætlun um reksturinn og greini hvaða staðsetning og húsnæði myndi henta. 

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps tilnefndi Aldísi Hafsteindóttur til setu í starfshópnum og fól jafnframt Samráðshópi um öldrunarmál í Hrunamannahreppi að fjalla um málið.

Fleiri myndbönd