-8.9 C
Selfoss

Hvernig á að lifa af á Íslandi

BES, Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, er aðili að Erasmus+ verkefni ásamt 3 öðrum skólum í mismunandi Evrópulöndum. Löndin sem um ræðir eru Eistland, Króatía og Danmörk og samstarfið snýst um vatn í náttúru og vísindum.

Þetta verkefni átti að hefjast haust 2020, en vegna Covid 19 var ekki hægt að byrja þá nema með þau verkefni sem unnin eru innan hvers skóla fyrir sig. Þau verkefni hafa verið skráð og sett inn á sameiginlegar síður.  En hlutinn sem snýr að heimsóknum frestaðist fram í mars 2022 og þá voru þau í BES gestgjafarnir þar sem verkefnastjórinn er staðsettur í BES.

Eins og kunnugt er, eru veður válynd á Íslandi og ekki síst í marsmánuði. En þrátt fyrir það komu hingað til okkar 8 manns frá 3 löndum og dvöldu hér í 3 daga. Tveir dagar fóru svo í að ferðast á milli landa.  Ekki er hægt að segja að þau hafi verið heppin með veður.  Þegar þau komu til landsins á mánudegi var Hellisheiðin lokuð og Þrengslin líka.  En það birti upp um síðir og komust þau öll á Selfoss á mánudagskvöldi þó seint væri.

Það voru kátir þátttakendur sem mættu á þriðjudegi í húsnæði BES á Stokkeyri.  Þau skoðuðu skólann, spjölluðu við fólk og kynntu sér starfið.  Einnig var fundur um verkefnið.  Eftir hádegi fóru þau svo í Hellisheiðarvirkjun og skoðuðu hana.  Á miðvikudeginum mættu þau í hús á Eyrarbakka (Rauða húsið)  og eftir hádegi var farið í Kerið og Ljósafossvirkjun.

Á fimmtudeginum voru mikil plön en veðrið setti strik í reikninginn og varð dagskráin endasleppt, en kaffi og súkkulaði heima hjá verkefnisstjóranum voru sárabót. „Það fer eftir veðri “var máltæki heimsóknarinnar. Öll komust heil heim þó að heimferðin hafi verið miserfið, þ.e. ferðin á Keflavíkurflugvöll. En segja má að þau hafi kynnst mismunandi formi vatns í þessari ferð. Kaldhæðnin í þessu öllu er að verkefnið á Íslandi bar nafnið “How to survive in Iceland”.

Í maí var svo komið að Króatíu að vera gestgjafar. Þau leystu það verkefni með glæsibrag. Þar var litið á, dýragarð, leikskóla, hringleikahús, nornir, baðströnd og farið í lautarferð í garði við stórt vatn.  Hitastigið var oftast yfir 20 stig og veðrið aðeins annað en á Íslandi í mars. En þáttakendur í verkefninu sáu að þegar gott fólk hittist skiptir veðrið ekki öllu máli.

Nú eru þau svo nýkomin heim eftir ferð til Danmerkur.  Danirnir stóðu sig vel í gestgjafahlutverkinu og fengu þau fjölbreytta sýn á vatnið í Danaveldi.  Þau skoðuðum að sjálfsögðu skóla og leikskóla, en auk þess manngerð stöðuvötn, aflagða vatnsaflsvirkjun, skolphreinsistöð, einstaka fjöru, vita, strönd og safn um ýmislegt sem tengist Jótlandi fyrr og nú ásamt því að fá boð í afmæli.

Erasmus+ styrkir meðal annars skóla í Evrópu til að vinna saman að verkefnum sem öll eiga það sameiginlegt að stuðla að auknu samstarfi og að draga úr fordómum og gefa skólum tækifæri á að kynnast því hvernig lífið er í öðrum löndum.

Fleiri myndbönd