-6.6 C
Selfoss

Ferskt hangikjötssalat, ofnbakaður lax og grísk jógúrt með bláberjum

Guðbjörg Björgvinsdóttir er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég þakka þér Maja mín kærlega fyrir áskorunina.
Eins og gefur að skilja hafa matarhefðir mínar, eins og flestra annara breyst mikið frá því í upphafi ferilsins sem er orðinn nokkuð langur.
Það var gaman að elda, vanda sig og gleðja fjölskylduna með góðum mat en nú eru fuglarnir flognir úr hreiðrinu. Í dag finnst okkur hjónunum gaman að gleðjast yfir góðum mat með góðum vinum og ég kýs að hafa hann einfaldan án mikillar fyrirhafnar.
Dæmi um matarboð:

Forréttur

Klettasalat borið fram í nokkuð víðri skál eða fati.
Tvíreykt hangikjöt þunnt sneitt blandað í salatið.
Köld piparsósa.

Aðalréttur

Ofnbakaður lax (helst villtur).
Laxaflökin lögð í smurt eldfast mót.  Skorið í flökin með ca.4 cm millibili til hálfs niður í fiskinn. Dala-fetaostur í kryddolíu eða gullostur stappaður og honum smurt niður í skurðarraufarnar, kryddað með salti og pipar, möndlukurli stráð yfir flökin, að lokum er safa úr hálfri til einni sítrónu dreift yfir fiskinn. Sett inn í 180-190 stiga heitan ofn. Eldunartími fer eftir þykkt flakanna.
Uppskerutíminn er í fullum gangi og því eru gullauga kartöflur með hýðinu og bráðið smjör ásamt brakandi fersku grænmeti af ýmsum gerðum ómissandi á diskinn.

Eftirréttur.

Slatti af íslenskum bláberjum,sett í glas á fæti.
Slatti af grískri jógúrt látin yfir.
Að síðustu hlynsýróp eftir smekk.
Ekki gleyma kertaljósi á borðið.

Að lokum vil ég tilnefna tengdadóttur mína Ingu Rún Björnsdóttur sem næsta matgæðing.
Hún er snillingur á mörgum sviðum þ.á.m. í matargerð.

Fleiri myndbönd