Valgerður Björnsdóttir, listakona mun bjóða upp á sýninguna Annað landslag í Gallery listaseli á Selfossi í september. Sýningaropnunin verður laugardaginn 3. September á milli 13 og 17 og býður Valgerður öll velkomin. „Á miðjum aldri fékk ég löngun í að mennta mig í myndlist, langaði að prófa eitthvað alveg nýtt og útskrifaðist úr grafíkdeild MHÍ 1999. Ég hef síðan aðallega unnið grafíkverk og er félagi í SÍM – Sambandi íslenskra myndlistarmanna og ÍG – Íslenskri grafík. Verkin á sýningunni eru öll unnin á þessu ári og eru máluð með akrýl á panel. Ferillinn við vinnuna var mjög skemmtilegur. Margt óvænt gerðist og myndirnar breyttust verulega á leiðinni. Oft birtist draumkennt landslag „annað landslag“ og ýmsar kynjaverur. Litir hafa alltaf haft mikil áhrif á mig og hef ég mikla ánægju af því að leika mér með þá eins og verkin sýna,“ segir Valgerður.