1.7 C
Selfoss

Endurreisn Laxabakka

Síðastliðinn föstudag var fögnuður mikill á bökkum Sogsins við langþráð reisugildi Laxabakka. Íslenski bærinn ehf. er núverandi eigandi Laxabakka „Það hefur gengið á ýmsu undanfarin ár en nú hefur náðst sátt um allan ágreining og uppbygging hafin af fullum krafti á Laxabakka, grind og sperrur komnar á sinn stað og húsið risið aftur upp. Reisugildið fór vel fram, þrátt fyrir að veður væri með allra versta móti, eins og hellt úr fötu allan tímann. Auk þess vildi til að gríðarleg umferðarteppa var undir Ingólfsfjalli um þetta leyti, sem fældi nokkra gesti frá. Þarna voru saman komnir þeir sem höfðu sýnt þessu verkefni einlægan áhuga eða komið beint að uppbyggingunni undanfarið,“ segir forsvarsfólk Íslenska bæjarins, Hannes Lárusson og Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir.

Þegar hinn heimsfrægi finnski arkitekt Alvar Aalto kom til landsins til þess að vera við opnun Norræna hússins árið 1969 heimsótti hann Laxabakka við Sog og lét þá þau orð falla, að Laxabakki væri fallegasta hús sem hann hefði séð á Íslandi.

Húsið er hannað og byggt af Ósvaldi Knudsen kvikmyndagerðarmanni og málarameistara af miklu listfengi og alúð árið 1942. Byggingin, sem er sambland af torfbæ og timburhúsi, stendur föstum fótum í innlendri hefð en sker sig jafnframt úr sem mjög meðvitaður hönnunargripur með sterk höfundareinkenni, sem ná bæði til hússins sjálfs, innréttinga, húsmuna og umhverfis. Laxabakki er síðasti hlekkurinn í óslitinni ellefuhundruð ára byggingarsögu íslenska torfbæjarins og baðstofan þar er síðasta íslenska baðstofan sem er rétt smíðuð samkvæmt aldagamalli hefð. Byggingin er einnig í samræðu við ýmsar hræringar í samtímabyggingarlist og hönnun, m. a. eru allar innréttingar og húsgögn sérhönnuð og smíðuð fyrir húsið. Handverk, allt frá veggjahleðslu, trésmíði, útskurði (gerður af Ríkharði Jónssyni myndhöggvara), húsgagnasmíði, innréttingum og málningarvinnu ber vott um afar fagleg vinnubrögð.

Mjög hefur hallað á ógæfuhlið staðarins síðustu ár vegna mikillar vanrækslu og viðhaldsskorts en í ljósi sátta sem náðust nýlega er uppbygging hafin af fullum krafti og stendur til að reisa húsið í sinni upprunalegu mynd. Íslenski bærinn, ásamt hópi áhugamanna um varðveislu þessara einstöku húsa og uppbyggingu staðarins hefur um all langt skeið haft það markmið að gera Laxabakka að friðlandi, vin, dvalarstað og sýningarvettvangi þar sem náttúru- og menningarvernd, skapandi hugsun og vistmenning verður höfð í fyrirrúmi.

Fleiri myndbönd