Hér kemur uppskrift að pilsi sem hentar vel í hvers kyns útiveru í íslenskri veðráttu, milli húsa eða uppi á fjöllum.
Garnið er nýtt hjá okkur, Kamelia frá Permin, það er mislitt með tweed áferð og votti af silkigljáa. 67 % ull, 20 % alpaka, 5 % silki, 6 % akryl og 2 % viskos. Til í nokkrum fallegum litum, ljósum og dökkum. Sjá magn í töflu.
Garnið er gefið upp á prjóna no 6 en af því hér er um að ræða skjólflík eru notaðir prjónar no 5.
Prjónafestan er 15 lykkjur á 10 cm.
Gert er ráð fyrir mitti og því er aukið út í hliðum þar til mjaðmavídd er náð. Hægt er að laga uppskriftina að líkamsbyggingu með því að fjölga eða fækka upphafslykkjunum og aðlaga síðan útaukninguna til að hafa réttan lykkjufjölda á mjöðmunum. Gert er ráð fyrir teygju í mittinu og þær eigum við til af öllum gerðum.
Hringprjónn no 5, prjónamerki, teygja.
nl = ný lykkja. Búið til lykkju með því að snúa upp á bandið á milli lykkjanna og prjónið slétta.
Fitjið upp og sameinið í hring. Prjónið sl prjón 3 sm, síðan eina umferð brugna og aftur jafnmargar sléttar umferðir. Setjið prjónamerki utan um fyrstu lykkjuna og síðan utan um lykkju í hinni hliðinni, sjá töflu fjölda lykkja á milli prjónamerkja.
Nú byrjar útaukning sem er gerð í þriðju hverri umferð alls 8 sinnum.
Gerið nl framan merktu lykkjuna og aðra á eftir merktu lykkjunni. Gerið eins í hinni hliðinni.
Eftir að útaukningu lýkur er prjónað sl áfram, sjá töflu.
Áður en byrjað er að prjóna stroffið er aukið út með því að gera nl eftir aðra hverja lykkju. Til að stemma lykkjufjöldann af er frávik frá þessu í tveim stærðum. Í minnstu uppskriftinni eru hafðar þrjár lykkjur á milli í hvorri hlið en í stærstu uppskriftinni er höfð ein lykkja á milli í hvorri hlið.
Prjónið stroff 2 sl, 2 br. Eftir fyrsta hluta er gerð nl á milli brugnu lykkjanna. Hún er síðan prjónuð brugðin í næsta hluta.
Eftir annan hluta er gerð nl milli annarrar og þriðju brugnu lykkjunnar og hún síðan prjónuð brugðin í þriðja hlutanum.
Hægt er að stytta og síkka pilsið að vild enda eru tölurnar í uppskriftinni tillögur að útfærslu á hugmynd.
Fellið laust af og gangið frá endum. Saumið kantinn niður á röngunni með lausu spori svo strengurinn verði nógu víður. Skiljið eftir gat fyrir teygjuna sem er þrædd í og fest saman á endunum þannig að hún sé þægileg og gagnleg.
Uppskrift eftir gamalli minningu.
Alda Sigurðardóttir