-10.3 C
Selfoss

Hundraðasti landsbyggðarrampurinn vígður

Í gær fór fram vígsluathöfn á Eyrarbakka þegar eitthundraðasti rampurinn í verkefninu „Römpum upp Ísland“ var vígður við Sjóminjasafnið á Eyrarbakka. Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra héldu ávörp við vígsluna ásamt því að leikskólabörn frá Stokkseyri og Eyrarbakka sungu fyrir gesti.

Aðgengi á Íslandi er oft mjög takmarkandi fyrir hreyfihamlaða. Því er mikilvægt að koma upp römpum eða tryggja aðgengi með öðrum hætti. Ramparnir geta verið jafn misjafnir og þeir eru margir, og þeir eiga svo sannarlega að vera margir.

Oft þarf ekki annað en að leysa aðgengi upp eina tröppu eða yfir háan þröskuld með einföldum hætti. Með sameiginlega átaki þjónustuaðila, verktaka og yfirvalda á þetta ekki að vera mikið mál og með því stuðlar verkefnið að bættu umhverfi og betra aðgengi á Íslandi.

Rampurinn er sem fyrr segir sá hundraðasti af 1000 römpum sem stefnt er að að vígja víðsvegar um landið á fjögurra ára tímabili, en sá fyrsti var vígður við Matkrána í Hveragerði þann 24. maí sl. svo það má segja að verkefnið fari vel af stað. Tilgangur verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins. Um stofnfé sjóðsins eru framlög einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og stofnana sem vilja leggja sitt af mörkum til  að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra um allt land.

Haraldur Þorleifsson stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno er hvatamaður verkefnisins. Styrktaraðilar verkefnisins Römpum upp Ísland á landsvísu eru Ueno, innviðaráðuneytið, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, BM Vallá, Davíð Helgason, Össur, InfoCapital, Brandenburg, Efla, Aton.JL, Deloitte, LEX, Gæðaendurskoðun ehf., ÖBÍ og Sjálfsbjörg. Sveitarfélög leggja færa ennfremur mikilvægt framlag á hverjum stað.

Krakkarnir úr leikskólanum Strandheimum tóku lagið við mikinn fögnuð gesta. Mynd: dfs.is/HGL
„Það er eins og þessi rampur hafi alltaf verið hérna, og þannig hefði það auðvitað alltaf átt að vera,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, í ræðu sinni við opnun rampsins. Mynd: dfs.is/HGL
Haraldur Þorleifsson stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, hvatamaður verkefnisins fylgist áhugasamur með ræðuhöldum ásamt fleiri gestum. Mynd: dfs.is/HGL
Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar færði þakkir þeim sem standa að verkefninu og ræddi um mikilvægi þess að öll hefðu sama aðgengi að afþreygingu og þjónustu, sem og náttúru íslands, óháð líkamlegum burðum. Mynd: dfs.is/HGL
Fjölmenni var við vígsluna eins og sjá má. Mynd: dfs.is/HGL

 

Fleiri myndbönd