Jórvík fasteignir ehf skrifaði undir styrktarsamninga til þriggja ára við Knattspyrnufélag Árborgar og knattspyrnudeild Selfoss á dögunum, en með samningnum við Árborg verður Jórvík fasteignir aðalstyrktaraðili bæjarhátíðarinnar Sumar á Selfossi.
Undirritunin fór fram við reisugil fyrir fyrstu húsin sem risin eru í nýja Jórvíkurhverfinu á Selfossi í götunni Bergvík. Undir samninginn skrifuðu þeir Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri Jórvíkur fasteigna ehf, Eiríkur Sigmarsson stjórnarmaður í Knattspyrnufélagi Árborgar og Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildar Selfoss.
Ánægja með samninginn
„Það er okkur mikil ánægja að ná samningum við Knattspyrnufélag Árborgar og knattspyrnudeild Selfoss. Það er markmið okkar, forsvarsmanna Jórvík fasteigna, að reyna að efla nærsamfélagið og þá sérstaklega íþrótta- og menningarviðburði þar sem þeir tengja íbúa sveitarfélagsins saman. Það er okkur því mikill heiður að verða aðalstyrktaraðilar Sumars á Selfossi, sem og að hjálpa til við frekari innviðauppbyggingu hjá knattspyrnudeild Selfoss til næstu þriggja ára. Það er okkar von að samstarfið verði öllum aðilum farsælt og sveitarfélaginu Árborg í heild sinni,“ sagði Snorri við undirritunina.
Knattspyrnufélag Árborgar er framkvæmdaaðili bæjarhátíðarinnar Sumar á Selfossi og var Eiríkur hjá Árborg á sama máli með að ánægja ríkti yfir samningnum.
„Jórvík fasteignir verða aðal styrktaraðili Sumars á Selfossi 2022 til 2024. Þessi fjölskyldu- og bæjarhátíð er stærsta fjáröflun Knattspyrnufélags Árborgar og fer fram aðra helgina í ágúst. Samningur við Jórvík fasteignir gerir okkur kleift að tryggja að aðbúnaður, aðstaða og þjálfun hjá félaginu sé í hæsta gæðaflokki og sambærileg því sem gerist hjá knattspyrnudeild Selfoss. Það er mat okkar hjá Árborg að samstarfið skili því að við munum sjá fleiri uppalda knattspyrnumenn í meistaraflokkum félaganna á komandi árum,“ sagði Eiríkur.
Jón Steindór, formaður knattspyrnudeildar Selfoss er þakklátur og segir styrkinn ekki sjálfgefinn.
„Knattspyrnudeild Selfoss leggur mikið upp úr því að hafa umgjörð í kringum meistaraflokka félagsins eins og best verður á kosið hérlendis. Aðkoma Jórvík fasteigna er mjög mikilvæg og gríðarleg innspýting í þá vinnu sem unnin hefur verið undanfarin ár. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki styðji við bakið á íþrótta- og tómsstundarstarfi í sinni heimabyggð með svona sterkum hætti og erum við í knattspyrnudeildinni því virkilega þakklát og vonumst eftir farsælu samstarfi,“ sagði Jón Steindór.