Fjórir fiðlunemendur Tónlistarskóla Árnesinga sóttu stutt hnitmiðað námskeið í Kaupmannahöfn í lok maí, ásamt tveimur nemendum úr MÍT og einum frá Tónskóla Sigursveins. Var námskeiðið undanfari árlegra vortónleika „Det danske Suzuki Institut” sem haldnir eru í Tívólí-tónleikasalnum í Kaupmannahöfn.
Tveir kennarar fylgdu íslenska hópnum, þau Guðmundur Kristmundsson og Greta Guðnadóttir fiðluleikari. Gefum Guðmundi orðið:
„Eftir æfingar hér heima var haldið til Kaupmannahafnar þar sem sameinuðust nemendur frá Danmörku, Póllandi og Úkraínu. Æft var stíft daglangt 26. – 27. maí í “Músikhúsinu”, geysifallegu tónleikahúsi frá 18. öld sem staðsett er í miðborg Kaupmannahafnar. Þar er fjöldi sala af ýmsum stærðum og greinilegt að tónlistin var snemma sett í öndvegi þar í borg. Loks var afraksturinn fluttur á tónleikum í hinum fræga tónleikasal í Tívólí þann 28. maí.
Kennarar á námskeiðinu voru auk kennara frá Danska Suzuki-skólanum, kennarar frá Póllandi og Úkraínu. Þess má geta að Úkraínu-kennararnir, foreldrarnir og nemendurnir voru allir á framfæri Önnu Podhajsku, Suzuki-kennara frá Gdansk en hún hefur tekið að sér á annan tug úkraínskra stríðsflóttamanna sem allir tengjast á einn eða annan hátt Suzuki-hreyfingunni, geri aðrir betur!
Alls voru um 150 flytjendur á sviðinu þegar mest var og skipulag til fyrirmyndar. Að loknum tónleikum var haldið út í skemmtigarðinn þar sem nemendur skemmtu sér konunglega langt fram eftir kvöldi.
Ferðir sem þessar eru mikilvægur þáttur í náminu. Það myndast vinskapur innan hópsins og ef vel tekst til milli ólíkra þjóða. Það er félagsskapurinn sem er svo mikilvægur til að viðhalda gleði og ánægju í hljóðfæranáminu.“