-6.6 C
Selfoss

Heilsuátak eldri borgara á Selfossi.

Síðastliðinn fimmtudag var gert hlé á heilsuátaki eldra fólks sem Sveitarfélagið Árborg stofnaði til í fyrrahaust og hefur farið fram í nýju Selfosshöllinni.  Berglind Elíasdóttir íþróttafræðingur hefur stjórnað æfingum sem fólust í að auka styrk, jafnvægi og þol.  Æfingar voru á þriðjudögum og fimmtudögum.  Fljótlega eftir að æfingatímarnir hófust voru um 70 manns að mæta svo að skipta þurfti í tvo hópa.  Mikil ánægja hefur verið hjá þátttakendum með æfingarnar og samdóma álit þeirra sem hafa tjáð sig að þær hafi gert mikið gagn fyrir líkama og sál.  Ánægjulegt var að sjá þegar fólkið streymdi í Selfosshöllina og bauð hvert öðru „góðan dag“ og tók að spjalla saman þegar gengnir voru nokkrir upphitunnarhringir fyrir æfingarnar. Félagslega voru þessar stundir dýrmætar. Enginn vafi er á að verkefnið er mjög vel heppnuð forvörn sem á eftir að spara sveitarfélaginu og ríki fjármuni síðar meir með bættu heilbrigði eldra fólks.

Í lok æfingar síðastliðinn fimmtudag færði Félag eldri borgara Selfossi, FEBSEL, Berglindi blómvönd í þakklætisskyni fyrir góða og fagmannlega þjálfun.   Nú tekur við sumarfrí og reiknað með að æfingar hefjist að nýju í lok ágúst eða byrjun september, það verður auglýst síðar.

Til fróðleiks má geta þess að á stjórnarfundi FEBSEL í febrúar 2019 lagði Anna Þóra Einarsdóttir, þáverandi varaformaður, til að félagið myndi skora á Sveitarfélagið Árborg að stefna að heilsuátaki fyrir eldra fólk í stíl við heilsueflingu Janusar.  Þáverandi formaður, Guðfinna Ólafsdóttir, kom á samtali við sveitarfélagið með þeim árangri sem nú er orðinn að veruleika.  FEBSEL þakkar bæjarstjórn fyrir framtakið og hvetur hana til dáða um að þróa verkefnið áfram t.d. með heilsufarsskoðun og mætti kanna hvort HSU gæti komið að því.  Öllum hlýtur að vera ljóst að með hraustum líkama fylgir heilbrigð sál.  Hvað er betra fyrir samfélagið?

Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður Félags eldri borgara Selfossi

 

 

 

 

 

Fleiri myndbönd