23. júní var stór dagur í sögu Afrekshuga þegar formaður félagsins, Friðrik Erlingsson, gekk til fundar við fullskapaða afsteypu af þessu fræga og fagra verki Nínu Sæmundsson, á verkstæði Skulpturstöberiet í Svendborg á Fjóni. Þau eru sannkallaðir listamenn, handverksfólkið hans Jörn Svendsen á Skulpturstöberiet, enda er bronsafsteypugerð flókið og margþætt verk og vandað verklag ekki á hvers manns færi.
Merkileg tilviljun
Að styttan hafi verið steypt í Svendborg er merkileg tilviljun því í bókinni um Nínu, eftir Hrafnhildi Schram, segir að Nína hafi verið hjá vinkonu sinni í Svendborg og gert þar fyrsta skúlptúrverk sitt, sem var brjóstmynd af litlu barni. Fyrir tilstilli þessa verks komst hún inn í undirbúningsnám fyrir Listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Afsteypa Afrekshuga í Svendborg lokar því fagurlega hringnum í sögu Nínu.
Nú tekur við undirbúningur að gerð stöpuls og stéttar á miðbæjartúninu á Hvolsvelli. Þegar stöpullinn er tilbúin kemur styttan loks heim. Og þá verður áreiðanlega óhætt að halda svolitla hátíð.