-1.4 C
Selfoss

160 drekaskátar hittust á Úlfljótsvatni

Vinsælast

Yngstu skátar landsins sameinast í tjaldbúð á skátamóti

Drekaskátar, sem eru skátar á aldrinum 7-9 ára, fengu loksins tækifæri til að hittast á skátamóti sem haldið var á Úlfljótsvatni um liðna helgi. Þangað stefndu 160 drekaskátar af öllu landinu ásamt 80 fararstjórum, foringjum og sjálfboðaliðum sáu um veglega dagskrá fyrir skátana.

Þemað í ár var ævintýraþema þar sem skátarnir fengu að spreyta sig í fjölbreyttri dagskrá, t.d. klifri, bogfimi, svampakasti, vatnasafaríi og bátadagskrá svo fátt eitt sé nefnt. Sú nýlunda var þetta árið að mótið var heila helgi en hefur hingað til verið ein gistinótt.

Skátarnir komu víða að, m.a. frá Akureyri, Vestmannaeyjum og Dalabyggð. Að auki mætti nýjasta skátafélagið á Íslandi á svæðið en það er hið endurvakta skátafélag Farfuglar frá Breiðdalsvík.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson verndari íslensku skátahreyfingarinnar heimsótti ungu skátana á mótinu og flutti þeim ávarp á kvöldvöku á laugardagskvöldinu.

Drekaskátarnir gróðursettu um 1000 tré til að kolefnisjafna þennan viðburð ásamt fleirum á komandi sumri enda eru 3 önnur skátamót fyrir ólík aldursbil á döfinni í sumar.

Mótið var skipulagt og framkvæmt af teymi ungra sjálfboðaliða sem flest eru á aldrinum 17-25 ára. En eitt meginmarkmið skátahreyfingarinnar er að gera ungu fólki kleift að takast á við krefjandi og spennandi verkefni og það hefur þessi flotti hópur svo sannarlega gert.

Nýjar fréttir