1.7 C
Selfoss

Rósa Aðalsteinsdóttir heiðruð

Eins og flestir vita þá hefur verið starfrækt bókasafnsdeild á Heimalandi undir Eyjafjöllum en þar hefur Rósa Aðalsteinsdóttir, frá Stóru Mörk, staðið vaktina til fjölda ára. Rósa kom fyrst til starfa hjá bókasafninu árið 1965 og var þá í tvö ár en starfaði svo við kennslu og var síðar skólastjóri Seljalandsskóla. Rósa brann fyrir því að halda bókasafninu gangandi og stuðlaði m.a. að því að bókasafnið fengi þá aðstöðu sem það er í núna en hún hefur svo starfað þar sem bókavörður síðan 1984. Rósa hefur alla tíð haldið vel utan um safnið, pantað inn nýjar bækur eftir þörfum og skráð allan bókakostinn skilmerkilega í þar til gerða bók. Bókasafnið hefur ávallt verið rólegur og góður staður til að hittast á og auðga andann undir góðri handleiðslu Rósu.  Rósa og kvenfélagið Eygló hafa síðari ár haldið úti Bókakaffi tvisvar sinnum í mánuði og hefur það verið afar vinsælt. Þá kemur fólk á öllum aldri til að eiga góða stund saman, fá sér gott með kaffinu og bók til aflestrar. Rósa hefur einnig fengið nokkra höfunda til að koma og lesa upp úr verkum sínum og eins og sjá má í gestabókum sem fylgja Bókakaffinu að þá hefur myndast góður hópur fólks sem mætir í hvert skipti.

Rangárþing eystra heiðraði Rósu fyrir skömmu fyrir framlag hennar til mennta- og menningarmála í sveitarfélaginu og fyrir þá eljusemi sem hún hefur sýnt í störfum sínum bæði á bókasafninu sem og við Seljalandsskóla. Rósa stendur nú á tímamótum þar sem hún er að láta af störfum hjá bókasafninu en hún varð áttræð árið 2021.

Fréttatilkynning frá Rangárþingi eystra.

Fleiri myndbönd