Góð íþróttaaðstaða er grunnur að góðu íþróttastarfi. Hamarshöllin hefur svo sannarlega þjónað hlutverki sínu vel síðan hún reis fyrir 10 árum síðan á hagkvæman hátt. Þótt höllin hafi fyrst og fremst verið aðstaða fyrir knattspyrnudeild félagsins sáu útsjónarsamir aðilar til þess að einnig væri þar íþróttagólf sem varð mikill vaxtarsproti fyrir aðrar deildir félagsins sem nýttu það vel til æfinga og mótahalda. Eins hafði húsið fjölbreytt notagildi fyrir eldri borgara, golfkennslu og ýmsa aðra viðburði.
Þegar við undirrituð settumst í stjórn Íþróttafélagsins Hamars á aðalfundi félagsins 16. febrúar 2020 hefði okkur aldrei grunað að við ættum eftir að upplifa þá eyðileggingu á starfsemi félagsins sem hefur raungerst í dag.
Þegar Hamarshöllin féll þann 22. febrúar sl. fór af stað gríðarleg vinna hjá sjálfboðaliðum félagsins að endurskipuleggja sig fram á vorið og jafnframt unnum við hratt með bæjaryfirvöldum að því að tryggja rútuferðir á Selfoss og í Þorlákshöfn fyrir stærstu deildirnar okkar, fimleika og knattspyrnu, sem fengu takmarkaða æfingaaðstöðu þar. Allar deildir Hamars, fyrir utan sunddeild, þjöppuðu sér saman í íþróttahúsið við Skólamörk með skertan æfingatíma sem hafði áhrif á yngri flokka starfið sem og það mikla afreksstarf sem er í gangi í félaginu.
Ljótur leikur
Samhliða þessu fór af stað mikil umræða í samfélaginu okkar. Aðilar sem hafa haft horn í síðu Hamarshallarinnar frá því að hún reis fyrir 10 árum síðan börðu sér á brjóst og hringdu jafnvel í formenn og forsvarsmenn Íþróttafélagsins til þess að láta í ljós vellíðan sína yfir því að loks væri þessi blaðra fokin sem þeim hafði aldrei þótt þóknanleg. Umræðan á samfélagsmiðlum og víðar var slík að við værum að drepa börnin okkar með því að senda þau til æfinga í Hamarshöllinni. Við værum að útskúfa börn frá íþróttastarfi með því að iðka íþróttir í Hamarshöllinni.
Íþróttafélagið Hamar var gert að pólitísku bitbeini og aðstaða þess var gerð að stóru kosningamáli, sem allir höfðu skoðun á, hvort sem þau höfðu beina aðild að félaginu eða ekki, hvort sem þau vissu eitthvað um íþróttamál eða ekki. Þetta var gert þvert á vilja félagsins.
Íþróttafélagið Hamar ákvað í aðdraganda kosninga að halda sig utan við pólitíska umræðu um þetta mál og er nú ljóst að það mun hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir félagið. Sumir halda því fram að þetta hafi verið mistök og það má alveg færa rök fyrir því. Okkar skoðun er hinsvegar sú að íþróttafélag eigi ekki að vera pólitískt afl. Ef íþróttafélag beitir sér í kosningabaráttu er ljóst að það mun alltaf tala gegn einhverjum flokkum, sérstaklega þegar plön þess ganga á skjön við skoðanir flokka og fólks þeim tengdum. Í aðdraganda kosninga kaus fólk að draga pólitískar línur, dylgja um persónur og draga ályktanir af þeim og skauta framhjá málefnalegri umræðu sem er samfélagslegt mein sem við þurfum að útrýma sem fyrst.
Leikgreining í hálfleik
Óhrekjanlegar staðreyndir máls eru þessar:
- Íþróttafélagið Hamar átti farsælt samstarf við bæjarstjórn fram að kosningum sem nálgaðist verkefnið að endurreisa Hamarshöllina af yfirvegun og leitaði eftir upplýsingum frá Íþróttafélaginu um hvernig útfærslan yrði. Útbúin var aðgerðaáætlun sem unnið var eftir og væri enn verið að vinna eftir ef úrslit kosninga hefðu verið öðruvísi.
- Flokkar sem mynda nýjan meirihluta í Hveragerði hafa aldrei, hvorki fyrir né eftir kosningar haft samband við stjórn Íþróttafélagsins Hamars þar sem sjónarmið Íþróttafélagsins Hamars voru rædd, né hafa þau leitað sér upplýsinga um hvað Íþróttafélagið Hamar vill gera varðandi Hamarshöllina. Þau töluðu hinsvegar niður Hamarshöllina, fundu henni allt til foráttu og skilja mátti á þeirra málflutningi að aðrar, betri lausnir væru til staðar sem gætu verið komnar upp fyrir haustið, sem ólíklegt er að raungerist nú.
- Eftir undirritun kauptilboðs frá Duol 26. apríl sl. var haldinn fjölmennur borgarafundur þar sem Íþróttafélaginu Hamri var ekki boðið að koma sínum skoðunum á framfæri. Þá var múgæsingin í hámarki og hávær minnihluti talaði niður uppblásið íþróttahús með upphrópunum og frammíköllum. Það hefði verið stórkostlega óábyrgt af þáverandi meirihluta eftir þennan fund að skuldbinda bæjarfélagið á þeim tveimur vikum sem voru þá til kosninga þar sem öllum var þá ljóst að samningi um dúkhýsi yrði rift sama hvað það kostaði ef meirihlutinn héldi ekki sínum hlut að kosningum loknum með tilheyrandi tapi fyrir bæjarfélagið.
- Frá 16. maí sl. höfum við verið í óformlegum samskiptum við fólk tengdum nýjum meirihluta. 18. maí sl. bað Íþróttafélagið Hamar, formlega, oddvita nýmyndaðs meirihluta um fund til að koma skoðunum sínum á framfæri og jafnframt ræða: Nýjan þjónustusamning, tilfærslu verkefna til Íþróttafélagsins, uppbyggingu íþróttamannvirkja til langs og skamms tíma og önnur mál. Þessi fundur hefur ekki enn raungerst og ekki verið boðaður, 26 dögum eftir kosningar, 24 dögum eftir að óformlega var beðið um samtal og samráð við sigurvegara kosninga. Allan þennan tíma höfum búið við óvissu um framtíðina og vitað fullvel að enginn innan núverandi meirihluta væri að vinna að framgangi þess að dúkhýsi myndi rísa á ný. Þau vildu tefja málið fyrir kosningar og þau hafa tafið málið vísvitandi eftir kosningar með það eitt að markmiði að renna út á tíma. Þetta kom bersýnilega í ljós á fyrsta bæjarstjórnarfundi eftir kosningar þar sem engin skýr svör komu fram varðandi það hvernig nýr meirihluti ætlaði sér að tryggja hér þá íþróttaaðstöðu sem svo sárlega vantar fyrir komandi vetur.
- Allir sem komu að málefnum Íþróttafélagsins eftir fall Hamarshallarinnar vissu það að við vorum í kappi við tímann að koma upp aðstöðu fyrir haustið, því er það óafsakanlegt að ekki hafi náðst samstaða um það að styðja þétt við bak Íþróttafélagsins Hamars og sjá til þess að tryggja það að sá raunveruleiki taki við okkur í haust.
Tapið er stórt
Íþróttafélagið Hamar hefur tapað stórt á 30 ára afmæli þess. Innra starf félagsins hefur laskast og verkefni vetrarins eru gríðarleg sem þegar hefur sett sitt mark á sjálfboðaliða, þjálfara, iðkendur og aðra aðila innan íþróttafélagsins. Sú atburðarás sem sett var af stað fyrir kosningar hefur komið íþróttafélaginu í þessa erfiðu stöðu. Þau sem þetta rita hafa unnið ötullega með virkri framkvæmda- og aðalstjórn Íþróttafélagsins Hamars síðastliðin þrjú ár til að auka kraft og skilvirkni þess og vinna að því m.a. að það komist í hóp fyrirmyndarfélaga ÍSÍ.
Að baki liggja þúsundir klukkutíma hjá okkur tveim í sjálfboðaliðavinnu af hugsjón, fyrir fimleikadeild, badmintondeild og síðast í aðalstjórn félagsins með hag Íþróttafélagsins okkar í heild sinni að leiðarljósi. Stundum, með jákvæðnina eina í farteskinu þegar erfiðu málin eru tekin fyrir.
Þegar þetta er ritað eru Hvergerðingar aftur farnir að rífast um Hamarshöllina á Facebook eins og gerðist oft í aðdraganda kosninga. Fæst af því sem þar kemur fram er málefnalegt þar sem pólitískar línur hafa mikil áhrif á umræðuna. Flestir eru nú fastir í pólitískum skotgröfum sem erfitt reynist að grafa sig upp úr. Fæstir eru raunverulega með upplýsingar um vanda og þarfir Íþróttafélagsins til skamms og lengri tíma. Umræðan í dag er slík að staðreyndir og rök fá lítinn hljómgrunn. Í staðinn dylgjum við um tímalínur og afstöður óháð því hver raunveruleikinn er.
Leikslok
Við höfum nú tilkynnt aðalstjórn um afsögn okkar sem formaður og gjaldkeri Íþróttafélagsins Hamars. Ástæðan er einföld, við höfum eytt miklum tíma og orku í að byggja upp Íþróttafélagið Hamar síðustu ár og reyndum allt sem við gátum, eftir fall Hamarshallarinnar, til að tryggja það að íþróttastarf gæti hafist með eðlilegum hætti næsta haust. Við náðum ekki eyrum allra og því er staðan eins alvarleg og hún er í dag. Í stað þess að vera að vinna að undirbúningi fyrir venjulegt starf næsta haust, erum við í pattstöðu frá því úrslit kosninga voru ljós 14. maí sl. og ljóst er að ólíklegt er að Hamarshöllin rísi í haust eins og vonir stóðu til. Atburðarásin sem sett var af stað í aðdraganda kosninga þar sem besti kosturinn var ítrekað talaður niður er með ólíkindum og hefði auðveldlega verið hægt að afstýra þessu ástandi með samtali, samráði og samvinnu í stað upphrópana og ómálefnalegrar umræðu sem skilaði okkur engu nema tjóni og leiðindum. Núverandi meirihluti hefur gert okkur ljóst, beint og óbeint, að þau hafa engan áhuga á því að vinna með okkur og því kveðjum við félagið okkar á þessum tímamótum í þeirri von að ný forysta nái sem fyrst þeim árangri sem okkur er meinað að ná fyrir félagið okkar.
Kæru félagar í Íþróttafélaginu Hamri, við þökkum gott samstarf sl. þrjú ár og hvetjum ykkur til að standa saman óháð flokkadráttum á þessum erfiðu tímum. Nú er tíminn til að fylkja sér að baki félaginu og gera allt sem í ykkar valdi stendur til að það nái vopnum sínum á ný. Íþróttafélagið á betra skilið en þetta, deildir Íþróttafélagsins eiga betra skilið en þetta. Iðkendur, þjálfarar, sjálfboðaliðar og aðstandendur félagsins eiga svo sannarlega betra skilið en þetta. Nú er tíminn fyrir ferska og öfluga forystu sem tekur við keflinu og vinnur að félaginu af áframhaldandi alúð og metnaði. Við munum ekki láta okkar eftir liggja í að styðja þá forystu, hér eftir sem hingað til.
Kæri lesandi, að endingu viljum við spyrja þig að þessu. Hvort telur þú að vænlegast sé að láta aðalstjórn Hamars, sem inniheldur alla formenn deilda þess og fimm meðlimi framkvæmdastjórnar, benda á og meta bestu kosti við uppbyggingu á íþróttaaðstöðu bæjarins eða háværa minnihlutann sem öskrar á Facebook og hefur engan áhuga á því að taka þátt í að byggja upp öflugt íþróttastarf á þessum krefjandi tímum? Við völdum fyrri kostinn en ljóst er að hverjum nýr meirihluti fylgir.
Með baráttukveðju,
Þórhallur Einisson, fráfarandi formaður Íþróttafélagsins Hamars.
Íris Brá Svavarsdóttir, fráfarandi gjaldkeri Íþróttafélagsins Hamars.