-8.9 C
Selfoss

Gísella Hannesdóttir dúx Menntaskólans að Laugarvatni

Vinsælast

Laugardaginn 28. maí var Menntaskólanum að Laugarvatni slitið í 69. sinn. Útkrifaðir voru 45 nemendur að þessu sinni; 22 nemendur af Félags- og hugvísindabraut og 23 nemendur af Náttúruvísindabraut. Hátíðleikinn var allt umlykjandi og gleðin skein úr andlitum nýstúdenta og gesta en brautskráning fór fram í Íþróttahúsinu á Laugarvatni. 

Þeir nýstúdentar sem voru meðlimir kórs ML sungu við athöfnina og komu þar fram í síðasta skipti sem meðlimir kórsins síns. 92% nemenda Menntaskólans að Laugarvatni eru meðlimir kórs ML undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur og má því með sanni segja að tónlistarlíf sé stór hluti af skólastarfinu. Sérstakar þakkir fær Stefán Þorleifsson fyrir píanóundirleik við athöfnina. 

Í ræðu skólameistara, Jónu Katrínar Hilmarsdóttur, kom fram að mikil samstaða hefði verið meðal starfsfólks í ML í gegnum Covid-19 faraldurinn og þeim færðar sérstakar þakkir fyrir. Annál skólaársins flutti áfangastjóri, Áslaug Harðardóttir, og sagði þar meðal annars frá glæsilegri kynningu sem haldin var fyrir opnu húsi nú í vor í tenglsum við lokaverkefni nemenda. Útskriftarnemendur ML vinna lokaverkefni á síðustu önninni sinni og starfsfólki ML, foreldrum nemenda og öðrum áhugasömum var boðið að skoða verkefnin á lokasýningu. 

Fyrir hönd nýstúdenta mælti Ásta Ivalo Guðmundsdóttir Isaksen og fyrir hönd júbílanta hélt Þorkell Snæbjörnsson ræðu en venju samkvæmt ávarpar fulltrúi 20 ára júbílanta gesti útskriftar í ML. Þorkell beindi orðum sínum að nýstúdentum og minnti þau á að þeim eru allir vegir færir og að bestu ár ævinnar séu framundan. 

Dux nýstúdenta var Gísella Hannesdóttir frá Arnkötlustöðum í Rangárþingi ytra með einkunina 9,79 en það mun vera næsta hæsta einkunn á stúdentsprófi í sögu skólans. Gísella er stúdent af Félags- og hugvísindabraut. Semi dux nýstúdenta var Ásdís Björg Ragnarsdóttir frá Kollsá 2 í Hrútafirði með einkunina 9,18. Ásdís er stúdent af Náttúruvísindabraut. 

Þrír nemendur hlutu styrk úr styrktarsjóði Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur. Auk Gísellu og Ásdísar Bjargar var það Jóna Kolbrún Helgadóttir frá Reykholti í Biskupstungum. 

Að athöfninni lokinni var nýstúdentum og öllum gestum boðið til kaffisamsætis í ML en það hefur ekki verið hægt undanfarin ár, í skugga Covid-19, og því mikil ánægja með að geta loksins boðið útskriftarnemum upp á hefðbundnar veitingar í lok athafnar. 

Fjölmargir afmælisstúdentar, júbílantar, heiðruðu skólann með nærveru sinni bæði á útskriftarathöfn og svo við hátíðarkvöldverð og veislu fram eftir laugardagskvöldi. Júbílantar færðu skólanum gjafir sem munu nýtast til góðra verka og eiga einlægar þakkir skólans fyrir ríkulegar gjafirnar en ekki síst velviljann og kærleikann sem þau bera til skólans sín. Fyrir heimför á sunnudegi var júbílöntum boðið til morgunverðar hjá skólameisturum í Garði; Jónu Katrínu Hilmarsdóttur, starfandi skólameistara, Halldóri Páli Halldórssyni, fráfarandi skólameistara og Valgerði Sævarsdóttur, húsráðanda í Garði.

Nýjar fréttir