Sviðslistahópurinn Fullorðið fólk flytur leikverkið Stelpur og strákar mánudaginn 30. maí í Leikfélagi Selfoss klukkan 20:00. Þetta er í fyrsta sinn sem verkið er flutt hérlendis á íslensku en höfundur verksins er leikskáldið Dennis Kelly sem margir þekkja fyrir verk sín DNA og Mathilda.
Stelpur og strákar var fyrst sett upp í Royal Court Theatre árið 2018 við einróma lof gagnrýnenda, en var þá aðalhlutverkið í höndum leikkonunnar Carey Mulligan. Í verkinu er skyggnst inn í líf, sorgir og sigra aðalpersónunnar, en óvænt stefnumót á flugvelli leiðir af sér ákaft, ástríðufullt og sjóðandi heitt ástarsamband. Fljótlega tekur hið eðlilega fjölskyldulíf við; kaupa hús, eignast börn, jöggla ferlunum – fjölskyldan þeirra er venjuleg fjölskylda. Þar til heimurinn þeirra fer að molna í sundur og hlutirnir taka óhugnanlega stefnu. Verkið er í senn kómískt og tragískt.
,,Ég hitti manninn minn í boarding-röðinni á leiðinni í EasyJet flug og ég verð að segja að mér líkaði strax illa við hann.”
Um Fullorðið fólk
Það er Björk Guðmundsdóttir sem fer með einleik í verkinu og er leikstjórn í höndum Önnulísu Hermannsdóttir. Björk útskrifaðist sem leikkona frá Listaháskóla Íslands 2021. Björk situr sem formaður í stjórn Improv Ísland og hefur tekið þátt í ýmsum sviðslista tengdum verkefnum.
Annalísa Hermannsdóttir er sviðshöfundur, leikstjóri og tónlistarkona sem útskrifaðist með BA gráðu í sviðslistum af sviðshöfundabraut LHÍ vorið 2021. Annalísa hefur mikla reynslu af kvikmyndagerð, en nýjasta myndbandsverkið hennar „Ég er bara að ljúga er það ekki?“” vann Tónlistarmyndband ársins 2022 á Íslensku tónlistarverðlaununum og hlaut einnig leikstjórnar verðlaun Sólveigar Anspach.
Verkefnið er styrkt af Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar og Uppbyggingarsjóði Vesturlands.
Miðasala er hafin á tix.is