Á síðustu árum hefur magnað uppbyggingarstarf farið fram hjá Golfklúbbi Selfoss (GOS) sem vakið hefur verðskuldaða athygli og aðdáun á landsvísu. Eftir að klúbbnum var tryggð örugg vist á núverandi svæði var sú ákvörðun var tekin af hálfu stjórnar og félagsmanna að stefnt skyldi að því að byggja upp 18 holu völl á þeim hraða sem klúbburinn réði við. Það varð hins vegar úr vegna stuðnings núverandi meirihluta í stjórn Sveitarfélagsins að gerður var samningur um mun hraðari uppbyggingu og nú er stefnt að því að 18 holu golfvöllur verði tekinn í notkun á 55 ára afmælisári klúbbsins 2026.
Í samstarfi við einn fremsta golfvallahönnuð landsins var hafist handa við að skipuleggja svæðið og liggur hönnun nú fyrir og hefur verið kynnt félagsmönnum. Þar sem ljóst var að afhenda þyrfti Vegagerðinni hluta af svæði golfvallarins sökum byggingar á nýrri brú hafa miklar framkvæmdir átt sér stað á síðustu þremur árum auk þess sem GOS tekur nú við jarðveg sem fellur til vegna byggingaframkvæmda í sveitarfélaginu.
Gjörbylting varð á starfi klúbbsins þegar ný æfingaaðstaða innanhúss og áhaldageymsla og aðstaða starfsmanna var tekin í notkun í upphafi árs 2020. Þar eru nú þrír hermar ásamt púttmottu. Aðstaða til kennslu og æfinga hefur því aldrei verið betri og þá má ekki gleyma gríðarlegum áhrifum á félagsandann í klúbbnum enda um okkar félagsmiðstöð að ræða.
Þrjár nýjar holur voru teknar í notkun 7. maí síðastliðin og hafa vakið mikla gleði meðal kylfinga enda glæsilegar golfholur. Að auki hafa 5 holur þegar verið grófmótaðar og stefnt að vígslu þeirra 2024. Allr nýjar holur verða jafnframt með vökvunarkerfi sem mun umbylta allri umhirðu vallarins.
Þá hafa félagsmenn í sjálfboðastarfi byggt glæsilegt æfingaskýli með 14 básum sem vígt verður á komandi vikum. Hönnun og teikningu þess gáfu félagsmenn klúbbnum. Sama átti við um innanhúss aðstöðuna okkar og verður það seint metið að fullu. Æfingaaðstaða á svæðinu verður þannig betri en hún hefur nokkurn tíma verið og þó er ekki öllu lokið enn því einnig verður byggður upp par-3 holu völlur með 6 glæsilegum holum til æfinga ásamt því að þegar er farið að móta fyrir æfingasvæði fyrir vipp, pútt og glompuhögg sem mun verða glæsilegasta æfingasvæði landsins. Að þessu öllu loknu verður því ekkert að vanbúnaði fyrir GOS að hýsa t.d. Íslandsmót og önnur slík stórmót.
Á síðustu misserum hefur fjölgun félagsmanna í klúbbnum einnig átt sér stað í takti við fjölgun íbúa í Árborg. Margir nýir félagsmenn hafa komið inn í gegnum einstaklega vel heppnuð nýliðanámskeið sem haldin eru á hverju vori og ávallt fullbókað á. GOS hefur einnig gert sér sérstakt far um að taka vel á móti nýliðum og það sama á að sjálfsögðu að gilda um sveitarfélagið. Við eigum að tryggja að hér sé tekið sérstaklega vel á móti öllum nýjum íbúum.
Næsti stóri draumur félagsmanna og stjórnar GOS er bygging nýs klúbbhúss í takti við það sem gert hefur verið hjá fjölda klúbba á síðustu árum. Slíka drauma vill Samfylkingin styðja við ásamt öllu því glæsilega uppbyggingarstarfi sem nú þegar á sér stað. Sveitarfélaginu ber að styðja við íþóttastarf á svæðinu og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Sem fyrrverandi formaður klúbbsins og núverandi stjórnarmaður hefur það verið einstaklega ánægjulegt að taka þátt í öllum þeim framkvæmdum sem hér hefur verið lýst og vil ég sérstaklaga þakka fyrir ómetanlegt framlag félagsmanna í sjálfboðastarfi þeirra.
Ástfríður Sigurðardóttir,
skipar 4. sæti lista Samfylkingarinnar.