-5.5 C
Selfoss

Sterk liðsheild til forystu í Sveitarfélaginu Árborg

Nú eru aðeins nokkrir dagar þangað til íbúar Sveitarfélagsins Árborgar ganga til kosninga og velja hverjum þeir treysta til að leiða sveitarfélagið næstu fjögur árin. Það er mikilvægt að þeir sem fá umboð til að leiða sveitarfélagið hafi faglega hæfni, vilja og getu til að vinna saman sem sterk liðsheild í traustu teymi, því þannig næst árangur sveitarfélaginu til heilla.

Það er líklega öllum ljóst að mikil uppbygging hefur átt sér stað í Árborg á síðustu árum. Fjölmargir hafa kosið að flytja til Árborgar og njóta þess að búa og starfa í fjölskylduvænu samfélagi. Í Árborg eru fjölmörg tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar, hvort sem það tengist búsetu, atvinnu, menningu eða leik. Það er þó ljóst að verkefni og áskoranir komandi tíma eru veruleg og þarf sveitarfélagið að tryggja öllum íbúum viðeigandi grunnþjónustu. Einnig þarf að huga að fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og innviðauppbyggingu.

Hvað einkennir gott teymi?

Til þess að ná árangri í verkefnum komandi tíma í Árborg þarf traust teymi, sterka liðsheild og lausnamiðað hugarfar.

 Eitt af því sem skilgreinir sterkt teymi er samstaða, þolinmæði og traust. Gott teymi býr yfir einstaklingum með fjölbreytta þekkingu og reynslu. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hópur sem vinnur saman í öruggu og sterku teymi nær betri árangri og finnur frekar lausnamiðaðar nálganir til að takast á við verkefnin. Í sterku teymi þar sem ríkir traust á milli aðila eru minni líkur á mistökum og ákvarðanir eru vandaðri. Gott teymi eykur afköst og stuðlar að aukinni nýsköpun og fleiri hugmyndir verða til.

D-listinn, sterk liðsheild og öflugt teymi.

D-listinn í Árborg býður fram lista með öflugu fólki og sterkri liðsheild. Fyrir listanum fer samheldið teymi með sérþekkingu á málaflokkum sveitarfélagsins, svo sem fjármálum, atvinnumálum, fyrirtækjarekstri, velferðarmálum, íþróttum og frístundum, menningu og innviðauppbyggingu.

Verði það val kjósenda að treysta D-listanum til að leiða Sveitarfélagið Árborg næstu fjögur árin munum við sem sterk liðsheild takast á við þau verkefni sem eru fram undan. Við munum leggja áherslu á vandaða stjórnsýslu og að finna farsælar lausnir í samvinnu við íbúa til að tryggja hagsæld samfélagsins og velferð íbúa í Árborg.

Með sterkri liðsheild og samvinnu getum við mótað skýra framtíðarsýn í Árborg okkar allra – þar sem allir skipta máli.

Bragi Bjarnason
Fjóla St. Kristinsdóttir
Kjartan Björnsson
Sveinn Ægir Birgisson
Brynhildur Jónsdóttir
Helga Lind Pálsdóttir
Þórhildur Dröfn Ingvadóttir

Xdarborg.is

Nýjar fréttir