-9.7 C
Selfoss

Vinnum saman að bjartri framtíð

Vinsælast

Framfarasinnar í Ölfusi bjóða fram lista með öflugu fólki á breiðum aldri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar n.k. laugardag, 14. maí. Á listanum er víðsýnt og áhugasamt fólk með reynslu, þekkingu og færni til að leiða áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins og reka stofnanir þess með ábyrgum hætti. Markmið hópsins hefur frá upphafi verið að vinna saman að umbótum og framförum í sveitarfélaginu okkar. Við höfum rætt við íbúa, forsvarsmenn fyrirtækja og starfsfólk sveitarfélagsins, hlustað og teljum okkur hafa skýra sýn á það sem gera þarf á næstunni til að bæta þjónustu og byggja upp öflugra samfélag. Við munum halda áfram að hlusta og við munum vinna í þágu samfélagsins.

Rekstur sveitarfélags er verkefni sem aldrei tekur enda. Við ætlum hins vegar á fyrstu dögum okkar að leggja áherslu á eftirfarandi:

  • Auglýsa starf bæjarstjóra, endurskoða stjórnkerfi sveitarfélagsins og hlúa að starfsfólki til að tryggja árangur og vellíðan í starfi.
  •  Auglýsa 100% starf forstöðumanneskja á 9-unni og í framhaldinu koma á velferðarteymi í samstarfi við færustu ráðgjafa sem sinna mun þjónustu við aldraða.
  • Skipuleggja með faglegum hætti og ná sátt um leikskólastarf í sveitarfélaginu og hraða undirbúningi byggingar nýs leikskóla í Þorlákshöfn.
  •  Leggja drög að áhugaverðum sumarstörfum fyrir ungt fólk á aldrinum 17-20 ára í samstarfi við fyrirtækin í sveitarfélaginu.
  • Hefja undirbúningsvinnu að kynningarátaki í samstarfi við fyrirtækin í sveitarfélaginu með það að markmiði að styrkja þau fyrirtæki sem nú þegar eru í sveitarfélaginu og laða að ný fyrirtæki.
  • Fara í viðræður við Gagnaveituna og Mílu um ljósleiðaratengingar á öll heimili í sveitarfélaginu sem ekki hafa kost á slíkri tengingu í dag.
  • Koma á tengslateymi til að efla samvinnu, upplýsingaflæði og tengingu milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Þarna ætlum við ekki að láta staðar numið heldur ætlum við að vinna eftir málefnaskrá okkar á kjörtímabilinu ásamt því að hlusta á raddir samfélagsins. Við ætlum að vinna með ykkur íbúum að betri þjónustu við aldraða, blómlegra atvinnulífi, faglegri þjónandi stjórnsýslu, öflugri fræðslu- og velferðarmálum, betri skipulags-, umhverfis- og samgöngumálum og öflugri íþrótta-, æskulýðs og menningarmálum.

Við bjóðum fram krafta okkar til að vinna fyrir ykkur og óskum eftir stuðningi ykkar í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn. Setjum X við B og vinnum saman að bjartri framtíð Ölfuss.

Hrönn Guðmundsdóttir, 1. sæti á lista XB Framfarasinna í Ölfusi
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson, 2. sæti á lista XB Framfarasinna í Ölfusi
Gunnsteinn R. Ómarsson, 3. sæti á lista XB Framfarasinna í Ölfusi
Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, 4. sæti á lista XB Framfarasinna í Ölfusi

Nýjar fréttir