Stjórnmál snúast um fólk. Sveitarstjórnarmálin um nærþjónustuna sem skiptir okkur flest miklu máli, Sérstaklega þau sem minna mega sín og þurfa til lengri eða skemmri tíma að reiða sig á öryggisnetið í samfélaginu.
Tilgangur og erindi Samfylkingarinnar í stjórnmálum er að tryggja almananhagsmuni og jöfnuð. Jafnræði og sanngirni við úthlutun takmarkaðra gæða og byrða í stað sérhagsmuna og bankasölu á undirverði.
Í hnotskurn þá snýst erindi okkar sem berjumst fyrir félagslegum jöfnuði um að tryggja öllum öruggt skjól og hlutverk í samfélaginu.
Fátækragildran sem margir öryrkjar eru hnepptir í er smánarblettur á samfélaginu. Skammarlegt fyrirkomulag refsar þeim sem geta unnið og heldur þeim föstum í viðjum fátæktar. Svipta marga möguleikum á að eignast eigið húsnæði og fjölskyldu.
Líkt er á komið með tilteknum hópi eftirlaunafólks. Flestir hafa þokkalega eða ágæta framfærslu en nokkur hluti eldri borgara er fastur í kröppum kjörum og barningi á efri árunum sem allir vilja njóta við áhyggjuleysi út af framfærslu eftir langa ævi á vinnumarkaði.
Það er hlutverk og skylda okkar að rétta hlut þeirra sem minna mega sín. Verða fyrir áföllum, heilsubresti og öðru því sem truflar og raskar tekjuöflun okkar á vegeferðinni í gegnum lifið.
Það er vitlaust gefið og við ætlum að jafna leikinn.
Björgvin G. Sigurðsson,
skipar 3. sæti á S-lista Samfylkingarinnar í Árborg.