-7.7 C
Selfoss

Bláskógabyggð blómstrar

Stöðug uppbygging hefur verið í Bláskógabyggð síðustu árin. Fyrirtæki hafa stækkað og eflst, sveitarfélagið hefur byggt upp innviði og aukið framboð íbúðalóða sem einstaklingar og fyrirtæki hafa keppst um. Á kjörtímabilinu hefur verið úthlutað 28 lóðum fyrir 65 íbúðir og munar um minna í tæplega 1.200 manna samfélagi. Ný deiliskipulög fyrir Laugarás, Laugarvatn og Reykholt, eru grunnur að frekari framþróun og skapa tækifæri til uppbyggingar af ýmsu tagi.

Jafnhliða því sem nýjar götur hafa orðið til hefur verið unnið að frágangi eldri gatna og göngustíga, frágangi opinna svæða og snyrtingu umhverfis. Leiksvæði grunnskólanna hafa gengið í gegnum algera endurnýjun og viðhald skóla- og íþróttamannvirkja verið aukið til muna. Metnaður fulltrúa T-lista stendur til að halda áfram á þessari braut og hafa verið unnar áætlanir um áframhaldandi uppbyggingu til næstu ára.

Nýr og glæsilegur leikskóli var tekinn í notkun í Reykholti og hefur sveitarfélagið því burði til að taka á móti fleiri íbúum af yngstu kynslóðinni.  Aukið var við húsnæði Bláskógaskóla á Laugarvatni. Fyrir dyrum stendur úttekt á rýmisþörf leik- og grunnskóla, enda getur enn frekari íbúafjölgun skapað nauðsyn til stækkunar. T-listi leggur áherslu á að sveitarfélagið geti hæglega tekið á móti fleiri íbúum. Einn liður í því er styrking hita- og vatnsveitu, sem nú er unnið að.

Þjónusta við eldri borgara hefur verið aukin, m.a. með heimsendingu á mat og bættri aðstöðu til félagsstarfs. Vilji er til þess að ráða starfsmann til að sinna enn frekar þörfum eldri borgara. Unnið hefur verið að því að fá stjórnvöld til að samþykkja uppbyggingu hjúkrunarheimilis á svæðinu og rætt við fulltrúa þeirra um möguleika á aukinni dagþjónustu.

Mikil áhersla hefur verið á hagsmunagæslu fyrir sveitarfélagið. Þar má nefna málefni hálendisins, þar sem þeim áfanga var náð að hugmyndir um þjóðgarð verða ekki útfærðar án aðkomu sveitarfélagsins. Einnig í samgöngumálum, þar sem stöðugt hefur verið minnt á þörf fyrir úrbætur á vegakerfinu.

Umhverfismál hafa fengið mikla athygli. Unnið er að stórfelldum úrbótum í fráveitumálum á Laugarvatni og í Reykholti, sorpflokkun hefur verið aukin og loftslagsstefna er í vinnslu. Miklar áskoranir eru framundan í umhverfismálum og eru fulltrúar T-lista reiðubúnir til að takast á við þær.

Miklu skiptir að stöðugleiki ríki í rekstri og stjórnun sveitarfélagsins. Ábyrg stjórnun fjármála skilar tækifærum til enn frekari uppbyggingar í þágu íbúanna. Tækifærin liggja í Bláskógabyggð! Tryggjum að unnt verði að nýta þau með því að setja X við T-lista á kjördag.

 

Helgi Kjartansson

Oddviti T – listans í Bláskógabyggð

Nýjar fréttir