8.4 C
Selfoss

Húrra fyrir Árborg

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum hversu mikilli sókn sveitarfélagið okkar hefur verið í síðustu árin. Framsókn er stolt af því að hafa átt þar hlut að máli í gegnum meirihlutasamstarf sitt við stjórnvölinn. Ásýnd okkar hefur tekið stakkaskiptum með nýjum miðbæ á Selfossi sem nýtur mikilla vinsælda og þangað flykkist fólk víðsvegar að úr heiminum til að nýta þá þjónustu sem þar er í boði.

Loksins hefur Selfoss aðdráttarafl sem ferðamannabær og blómstrar sem slíkur. Samhliða því hafa hingað flutt búferlum fólk á öllum aldri sem lýsir yfir ánægju sinni með móttökurnar þegar það er tekið tali.

Eyrarbakki og Stokkseyri, okkar gömlu hafnar- og verslunarþorp, eiga sér mikla sögu og möguleika í vexti. Þessi þorp við sjóinn eru heillandi fyrir fjölskyldufólk og því verðum við að hlúa að þeim og tryggja fólki þar öryggi með uppbyggingu innviða.

Þá má ekki gleyma því að í Árborg er boðið upp á fjölmarka kosti dreifbýlis og sveitasælu. Öflugur landbúnaður er stundaður í Sveitarfélaginu og landbúnaðarland er gott í Flóanum, það ber að varðveita.

Þrátt fyrir að hér líði flestum vel er ekki þar með sagt að nú sé hægt að setjast í helgan stein því að ýmsu þarf að vinna að á næstu árum og áratugum.

Við í Framsókn í Árborg ætlum m.a. að.

Hefja af alvöru samtal við ríkið um að efla fæðingarþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og tryggja hér öfluga og örugga fæðingardeild.

Auka virðingu og skilning á milli mismunandi menningarheima og stuðla að fjölbreyttu og umburðalyndu samfélagi.

Framsókn vill hvetja til atvinnuuppbyggingar í orði og á borði með því að veita 75% endurgreiðslu á gatnagerðagjöldum vegna byggingar á atvinnuhúsnæði í sveitarfélaginu.

Mín markmið eru skýr fái ég umboð kjósenda. Ég mun vinna af öllu afli fyrir mína samborgara og heimabyggð.

Ég bið ykkur því um stuðning svo ég megi berjast fyrir bænum okkar með ykkur.

Gísli Guðjónsson, 3 sæti, baráttursætið, á lista Framsóknar í Árborg.

Nýjar fréttir