3.9 C
Selfoss

Mætum fjölskyldunni

Mikil íbúafjölgun hefur átt sér stað í Árborg síðastliðin ár og framtíðarspá gerir ráð fyrir að hún muni halda áfram og aukast til muna. Mest megnis er þetta fjölskyldufólk sem vill búa sér gott líf í fjölskylduvænu samfélagi. Ég tengi mikið við þennan hóp enda er ég partur af honum, flutti í Árborg árið 2016 og stofnaði heimili og fjölskyldu. Mér hefur fundist einstaklega gaman að vera partur af þessari uppbyggingu, að fá að sjá bæinn minn blómstra og hef þar af leiðandi tengst staðnum enn sterkari böndum. Þetta er ekki fastmótað samfélag sem erfitt er að komast inn í heldur tekur það á móti manni með opnum örmum, manni líður eins og maður sé kominn heim. En þessu fylgja líka miklir vaxtaverkir sem hafa bein áhrif á fólkið í sveitarfélaginu.

Innviða- og atvinnuuppbyggingin hefur ekki náð að fylgja fólksfjölguninni. Foreldrar þurfa margir hverjir að sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið og fylgja því áskoranir þar sem mikil fjarlægð er á milli heimilis og vinnu. Leik- og grunnskólarnir eru yfirfullir og það hefur þurft að ráðast í bráðabirgðalausnir á meðan nýjar skólabyggingar rísa. Flest börn í Árborg undir 18 mánaða aldri fá ekki leikskólapláss og mörg komast ekki að hjá dagforeldri. Hvað eiga foreldrar að gera í  stöðu þar sem mikil óvissa og áhyggjur varpa skugga á tíma sem ætti annars að snúast um að kynnast barninu og hlúa að fjölskyldunni allri?

Þarna er nauðsynlegt að mæta fjölskyldunni. Framsókn í Árborg ætlar að gera það með heimgreiðslum að loknu fæðingarorlofi til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla, eða daggæslu, að 18 mánaða aldri barna.

Gerum Árborg að fjölskylduvænna samfélagi með því að styðja betur við barnafjölskyldur, því börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum.

Díana Lind Sigurjónsdóttir,
Leikskólakennari í 4. sæti á lista Framsóknar í Árborg.

Nýjar fréttir