Þegar kemur að skrifum um fjármál sveitarfélagsins þá missa margir áhugann. En staðreyndin er sú að skilvirkur rekstur og aðhald í fjármálum er grundvallaratriði og skiptir okkur öll máli. Það er grundvöllur þess að sveitarfélagið hafi bolmagn til að lækka gjöld og fasteignaskatta á íbúa jafnt sem fyrirtæki, ásamt því að geta veitt þá grunnþjónustu sem íbúar og fyrirtæki hafa þörf fyrir. Rekstur sveitarfélagsins á að vera sjálfbær. Tekjur þurfa að duga fyrir kostnaði rétt eins og hjá heimilum og fyrirtækjum. Kjörnum fulltrúum ber því skylda að haga rekstri sveitarfélagsins þannig að það geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum til framtíðar.
Innviðauppbygging
Traustir innviðir eru mikilvægir. Þegar þeir eru í lagi tökum við ekki eftir þeim og við göngum að þeim sem vísum. Góðir innviðir tryggja og stuðla að bættum lífsgæðum og þegar hlutirnir eru ekki í lagi þá bregður okkur við. Innviðauppbygging í Sveitarfélaginu Árborg hefur ekki haldið í við aðra uppbyggingu. Þó fjölgun íbúa hafi verið mikil síðustu ár þá afsakar það ekki stöðuna sem nú er uppi. Framtíðarsýn og markviss vinna er það sem þarf í aðstæðum sem þessum. Afleiðingar ástandsins hafa áhrif á líf og lífsgæði íbúa.
Skuldir á hvern íbúa
Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2021 var í síðustu viku lagður fram í bæjarstjórn og verður að segjast að niðurstöður hans valda miklum vonbrigðum. Gríðarlegt tap er á rekstri sveitarfélagsins og skuldahlutfall þess eitt það hæsta á landinu. Ríflega 2ja milljarða króna tap var á rekstri aðalsjóðs (A-hluti) þrátt fyrir 1,4 milljarða hækkun á tekjum sem þýðir einfaldlega að tekjur duga ekki fyrir útgjöldum. Skuldir sveitarfélagsins námu um 21 milljarði sem jafngildir því að skuldir á hvern íbúa eru tæplega 2 milljónir. Samantekin rekstrarniðurstaða A og B hluta er neikvæð um tæplega 1,8 milljarð. Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er grafalvarleg en fjármagnsgjöld hafa hækkað verulega á árinu. Því er mikilvægt að taka á fjármálum sveitarfélagsins af festu og ábyrgð. Forgangsraða þarf á öllum sviðum og skapa fyrirsjáanleika. D-listinn í Árborg vill móta framtíðarsýn sem er skýr og raunhæf svo sveitarfélagið geti haldið áfram uppbyggingu á þeirri þjónustu sem því ber að veita í þágu íbúa.
Ég hvet þig til að mæta á kosningaskrifstofu D-listans að Austurvegi 9 sem er opin alla virka daga kl. 16:00-19:00. Við viljum eiga samtal við þig framtíðina og þær áherslur og lausnir sem við stöndum fyrir.
Fjóla Kristinsdóttir,
2. sæti á D-listanum í Árborg