-10.3 C
Selfoss

Skóflustunga tekin að nýju heilsusamfélagi í Hveragerði

Fyrsta skóflustungan að Lindarbrún í Hveragerði var tekin í gær.
Lindarbrún er heilsusamfélag í 84 sjálfbærnivottuðum íbúðum í nálægð við Heilsustofnun.

Náttúrulækningafélag Íslands hefur um árabil leitað leiða til að bæta húsakost Heilsustofnunar og skjóta styrkari stoðum undir rekstur hennar. Bygging íbúða á landi Heilsustofnunar fyrir einstaklinga sem vilja njóta öryggis og þjónustu Heilsustofnunar er einstakt tækifæri fyrir þá sem setja góða heilsu og vellíðan í öndvegi og mun einnig efla starfsemi Heilsustofnunar.

Allur afrakstur af byggingu og sölu á íbúðum við Lindarbrún mun renna til að endurnýja meðferðaraðstöðu og bæta aðra aðstöðu Heilsustofnunar og hið sama á við um aðra uppbyggingu á lóðinni í framtíðinni, svo sem bygging fleiri íbúða, fjölgun gistirýma á Heilsustofnun og möguleg uppbygging á heilsudvalarstað.

Íbúðirnar skiptast niður í 5 klasa, hver með sinn inngarð. Klasarnir eru allir tengdir með upphituðum göngustíg. 4-6 íbúðir eru í hverju húsi sem eru öll tveggja hæða. Hverri íbúð fylgir einnig stæði í bílakjallara sem er tengdur við lyftuhús. Hleðslustöðvar eru fyrir rafbíla og hjól og góðar göngu- og hjólaleiðir.

Íbúðirnar voru teiknaðar af arkitektastofunni Arkþing Nordic og Eflu verkfræðistofu. Þingvangur er byggingaraðili. Íbúðirnar verða sjálfbærnivottaðar (LEED) og geta íbúðarkaupendur þá valið að taka græn og hagstæðari lán hjá flestum lánastofnunum.

 

Fleiri myndbönd