-5 C
Selfoss

Afsakið kæru landsmenn, það eru að koma kosningar!

Vegna ummæla(1) formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra frá því í gær er rétt að benda lesendum á það strax, að efni þessarar greinar er tengt kosningum í fortíð, nútíð og framtíð.

Í ljósi framangreindra ummæla má ekki að mati formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra minnast á það nú að barnamálaráðherra(2) hafi slegið sig pólitískt til riddara með vanfjármögnuðum farsældarlögum á kostnað sveitarfélaganna í landinu. Lagasetningu sem mun valda sveitarfélögunum töluverðum kostnaðarauka sem allt stefnir í að þau muni ekki fá bætt nema að litlu leyti – Afsakið kæru landsmenn, það eru að koma kosningar.

Það má þá væntanlega ekki heldur minnast á að Þjóðarhöllin sem að ráðherrar Framsóknarflokksins lofuðu(3) að myndi koma til framkvæmda „núna“ fyrir síðustu alþingiskosningar er hvergi að sjá í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar – Afsakið kæru landsmenn, það eru að koma kosningar.

Heiðarleiki og raunsæ fyrirheit í pólitík(4)

Undirritaður rakst á þessa fyrirsögn á grein eins framboðs í Svf. Árborg í vikunni sem birt var á héraðsfréttamiðli(5). Í greininni útlistaði framboðið heiðarleikaprógrammið sitt. Má trúa því að sá framboðslisti hafi og muni í framhaldinu iðka prógrammið sem það setti upp? – Afsakið kæru landsmenn, það eru að koma kosningar.

Í tilviki þess framboðs má væntanlega ekki minnast á það þegar að þáverandi forseti bæjarstjórnar, sem nú skipar 3. sæti listans, lýsti sig andsnúinn(6) nýrri Selfossbrú yfir Ölfusá í upphafi árs 2015. Brúin var á þeim tíma, árið 2015, á samgönguáætlun og átti samkvæmt henni að verða tekin í notkun árið 2019 þ.e. fyrir þremur árum síðan. Í stað þess er nú útlit fyrr að ekki verði ný brú vígð fyrr en árið 2026 – Afsakið kæru landsmenn, það eru að koma kosningar.

Það má væntanlega ekki heldur í framangreindu samhengi minnast á það að D-listi Sjálfstæðisflokksins í Svf. Árborg lofaði því árið 2006 að reist yrði nýtt fjölnota íþróttahús á íþróttasvæðinu við Engjaveg. Það mál endaði síðan á kosningaloforðaborði M-lista Miðflokksins í Árborg fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2018 að keyra það verkefni áfram. Vígsluathöfn Selfosshallarinnar verður 9. maí næstkomandi – Afsakið kæru landsmenn, það eru að koma kosningar.

Það má þá heldur ekki að mati formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra minnast á það, að hann sjálfur og meðhjálpari hans ráku rýting á dögunum í bak oddvita Framsóknarflokksins og forseta bæjarstjórnar hér í bæ, á meðan þeir þuldu við ódæðisverkið, að sögn kunnugra, að þeir væru „vinir hans“ – Afsakið kæru landsmenn, það eru að koma kosningar.

Það má þá svo væntanlega alls ekki minnast á það, að í kjölfar rýtingsstungunnar að þá hafi nær samstundis Ungmennafélag Selfoss óskað eftir starfskröftum hins farsæla forseta bæjarstjórnar. Sá sem fyrir rýtingsstungunni varð, hefur nú tekið við því virðingarhlutverki að starfa sem formaður Ungmennafélags Selfoss, elstu og virtustu félagasamtökum á Selfossi. Því fagna allir sem unna ungmennafélaginu og því mikilvæga samfélagslega hlutverki sem að það gegnir – Afsakið kæru landsmenn, það eru að koma kosningar.

Tómas Ellert Tómasson byggingarverkfræðingur,
formaður bæjarráðs og oddviti M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Svf. Árborg.

 

[1] https://www.visir.is/g/20222254681d/spyr-hvort-hord-um-raeda-tengist-um-maelum-a-bunadar-thingi-eda-sveitar-stjornar-kosningum

[2] https://www.visir.is/g/20222241073d/er-sann-gjarnt-ad-thing-menn-og-rad-herrar-slai-sig-til-riddara-a-kostnad-sveitar-fe-laga-

[3] https://www.visir.is/g/20212159478d/thjodar-hollin-risi

[4] https://www.dfs.is/2022/04/29/heidarleiki-og-raunsae-fyrirheit-i-politik/

[5] https://www.dfs.is/2022/04/29/heidarleiki-og-raunsae-fyrirheit-i-politik/

[6] https://www.visir.is/g/2015150139773/motmaelir-stadsetningu-nyrrar-bruar-yfir-olfusa

Nýjar fréttir